Fraktflugfélagið Cargolux ásamt tveimur öðrum félögum samþykkti í vikunni að greiða bandarískum yfirvöldum sekt að andvirði 214 milljóna Bandaríkjadala fyrir ólöglegt samráð.

Bandarísk samkeppnisyfirvöld hafa nú í nokkurn tíma rannsakað mögulegt ólöglegt samráð fraktflugfélaga og hefur sú rannsókn leitt til ákæru á hendur 15 flugfélögum og sektum að andvirði 1,6 milljarða dala.

Þá kemur fram í frétt Financial Times af málinu að á síðustu tveimur árum hafa þrír hátt settir stjórnendur fraktflugfélaga verið dæmdir til fangelsisvistar fyrir að hafa viðhaft ólöglegt samráð um flutningsverð.

Í þetta sinn þurfti Cargolux að greiða 119 milljónir dala, japanska félagið Nippon Cargo þarf að greiða 45 milljónir dala og Suður kóreska félagið Asiana Airlines þarf að greiða 50 milljónir dala en öll hafa félögin játað á sig brot um samráð við verðlagningu. Málinu lýkur með sátt sem þó er gerð með fyrirvara um samþykki bandarískra dómsstóla.

Talið er að brotin hafi átt sér stað frá september 2001 fram í febrúar árið 2006 en brot Asiana Airlines, sem snýr reyndar líka að ólöglegum samráði í farþegaflugi, nær aftur til apríl árið 2000.

Þau félög sem þegar hafa játað á sig brot og greitt stjórnvaldssektir eru British Airways, Korean Airlines, Qantas, Japan Airlines, Martinair (dótturfélag Air France-KLM), Cathay Pacific, SAS, Air France-KLM, LAN Cargo, Aerolinhas Brasileiras og El Al Israel Airlines. Þeir stjórnendur sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar voru starfsmenn British Airways, Qantas og SAS.

Flugfélögunum er öllum gefið að sök að hafa stundað samráð um verðlagningu á fraktflugi til og frá Bandaríkjunum. Þannig hafa stjórnendur og millistjórnendur félaganna hist reglulega, víðs vegar um heiminn, verið í tölvupóstsamskiptum, símasamskiptum og fleira.

Unnið að rannsókn út um allan heim

Bandarísk samkeppnisyfirvöld höfðu rannsakað mögulegt samráð í nokkurn tíma þegar starfsmaður British Airways sendi óvart fax á skrifstofu FAA, bandarískra flugmálayfirvalda, sem átti að fara til starfsstöðvar Qantas í New York. Í ljós kom að grunur yfirvalda reyndist á rökum reistur og rannsóknin fór á flug, eins og Bloomberg fréttaveitan orðar það svo skemmtilega.

Þá hafa bandarísk yfirvöld notið aðstoðar samkeppnisyfirvalda hjá Evrópusambandinu, Ástralíu, Bretlandi, Kóreu og Japans.

Financial Times segir að hér sé um að ræða eitt af stærstu samráðsbrotum allra tíma og talið er að Evrópusambandið eigi einnig eftir að láta til sín taka og enn eru um 20 fraktflugfélög sem sæta rannsóknum í Bandaríkjunum, á Bretlandi og á vegum ESB.

Þess má geta að British Airways þurfi sumarið 2007 að greiða 121,5 milljóna punda stjórnvaldssekt til breskra yfirvalda fyrir að hafa viðhaft ólöglegt samráð í farþegaflugi. Þar átti Virgin Atlantic flugfélagið einnig stóran hlut að máli en félagið fékk náð í augum yfirvalda fyrir að vera fyrsta flugfélagið til að bjóðast til að leggja öll spil á borðin og upplýsa um eigin brot.