Eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á síðastliðið haust hætti Askar Capital að stunda öll gjaldeyrisviðskipti.

Svo virðist sem þrír starfsmenn hafi þó haldið áfram að stunda gjaldeyrisviðskipti án vitundar yfirstjórnar bankans en í morgun tilkynnti Askar Capital að félagið hefði sent tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins um meint brot þriggja fyrrverandi starfsmanna á lögum og verklagsreglum bankans.

Þar kom fram að brotin varða starfsemi í eigin félagi starfsmannanna án vitneskju bankans og tengjast fjármagnsflutningum f.h. þriðja aðila á tímabilinu frá desember 2008 til mars 2009.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er hér  um að ræða fyrirtækið Advato ehf. en fyrirtækið var stofnað þann 4. desember síðastliðinn og er nú til heimilis að Skógarhlíð 12.

Starfsmennirnir sem um ræðir eru samkvæmt heimildum blaðsins þeir Þórður Geir Jónasson fyrrv. forstjóri Lánasýslu ríkisins og starfsmaður Alþjóðabankans, Grétar Hannesson, sem áður starfaði hjá EFTA, Glitni og FL Group og Hjalti Sölvason sem áður starfaði hjá Nýherja.

Viðskiptablaðið hefur fengið þetta staðfest en ekki hefur náðst í þá í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Þórður Geir var framkvæmdastjóri Capital Markets, sem sinnti fjármögnunarráðgjöf, þá helst fyrir opinbera aðila s.s. sveitafélög og ríkisfyrirtæki auk þess sem sviðið sá um gjaldeyrisviðskipti fyrir hönd bankans. Þeir Grétar og Hjalti störfuðu undir Þórði hjá Askar.

Mennirnir þrír eru sakaðir um að hafa haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti í gengum eigið félag, Advato á meðan þeir voru að störfum hjá Askar og þegið fyrir það þóknun.

Allir létu þeir af störfum hjá bankanum í mars síðastliðnum og gáfu þá skýringu að þeir ætluðu að stofna eigið félag og starfa við það. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fóru að vakna grunsemdir hjá stjórnendum bankans nokkrum dögum síðar og tilkynnti regluvörður bankans máið til Fjármálaeftirlitsins.

Grunur vaknaði meðal stjórnenda þegar viðskiptavinir höfðu samband við bankann og spurðu eftir mönnunum þremur. Þá kom í ljós að margir viðskiptavinanna töldu sig hafa átt í gjaldeyrisviðskiptum við Askar en ekki eigið félag starfsmannanna. Viðskiptin fóru, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, aldrei fram í gegnum kerfi bankans.

Eins og fyrr segir var félagið Atvato ehf. stofnað þann 4. desember síðastliðinn en það hét fyrst CPP. Þá er lénið cpp.is skráð á félagið þann 15. janúar síðastliðinn en Hjalti Sölvason er tengiliður fyrir léninu.