Eitt þeirra fimm mála sem tengjast húsleitum embættis sérstaks saksóknara í dag er lánveitingar Glitnis til Stoða (síðar Landic Property), Baugs og 101 Capital í tengslum við kaup á danska fasteignafélaginu Keops. Keops var stærsta skráða fasteignafyrirtækið í Danmörku. Glitnir fjármagnaði kaup Landic Property á Keops en verkefnið kallast „Project Para“ í fundargerð áhættunefndar Glitnis.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að umsvif Stoða (Landic Property) jukust verulega eftir kaup á fasteignafélaginu Keops í Danmörku árið 2007. Félagið hafði áður keypt danska fasteignafélagið Atlas Ejendomme, eiganda stórverslananna Illum og Magasin í Kaupmannahöfn. Þau kaup voru gerð árið 2005.

Félagið nátengt Glitni

„Stjórnarformaður Landic Property var Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., en meðal annarra í stjórn var Ingibjörg Pálmadóttir. Forstjóri Landic Property Group var Skarphéðinn Berg Steinarsson eða allt fram til nóvember 2008 þegar Viðar Þorkelsson tók við. Fjármálastjóri félagsins var Gunnar Petersen. Skarphéðinn Berg sat í stjórn Glitnis frá ársbyrjun 2006 fram á vorið 2008,“ segir í rannsóknarskýrslunni. Landic Property var að stærstum hluta í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og tengdra aðila en félög í hans eigu voru einnig stærstu eigendur Glitnis.

Ráðist í Project Para

Hinn 28. Júní 2007 veitti Glitnir Stoðum (Landic Property) lán að andvirði 3,0 milljarða danskra króna til kaupa á Keops A/S. Um leið fékk Baugur lán að upphæð 575 milljónir danskra króna í sama tilgangi. „Glitnir veitti lánin með því markmiði að auka þóknunartekjur bankans (!) og að því tilskildu að Stoðir og Baugur séu ekki fjármálalega tengdir aðilar samkvæmt ákvæðum bankalaga um stórar áhættuskuldbindingar!,“ segir í rannsóknarskýrslunni.

Fimmtungur heildaraukningar lána til Landic Property er ein lánveiting hjá Glitni sem veitt var sumarið 2007 vegna kaupa félagsins á Keops. Í Rannsóknarskýrslunni er birt brot úr fundargerð áhættunefndar glitnis frá 28. Júní 2007. Þar segir meðal annars að Stoðir vinni að því að bjóða í öll hlutabréf í Keops. Verkefnið er kallað „Project Para“ í fundargerðinni. Farið er fram á að Glitnir fjármagni hlutabréfakaupin, svo fremi sem Stoðir eignist að minnsta kosti 90% hlutafjár og atkvæðisrétt í Keops. Þá gætu Stoðið keypt út aðra hluthafa og afskráð félagið.

Fjármögnin var samþykkt, en í fundargerðinni segir: „Niðurstaða: Samþykkt, stefnt að aukinni þóknun og það skilyrði sett, að Stoðir og Baugur séu ekki tengdir aðilar með tilliti til reglna um stórar áhættuskuldbindingar“.

Þá segir að hinn 25. Júlí 2007  hafi Glitnir veitt 6.900 milljóna króna lán til 101 Capital ehf til kaupa á 19% eignarhlut Baugs í Stoðum. Félagið 101 Capital var í eigu Ingibjargar S. Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeir Jóhannessonar, sem þá var aðalhluthafi í Baugi.

„Reddingar“ um sumarið 2008

Á árinu 2008 fékk Landic Property auknar fyrirgreiðslur frá viðskiptabönkunum en félagið var í viðskiptum við alla viðskiptabankana þrjá auk Sparisjóðabankann og Straum. Hlutfallslega var aukin fyrirgreiðsla mest frá Glitni, en félagið var að stórum hluta í eigu Stoða, sem jafnframt var stærsti hluthafi Glitnis.

Í rannsóknarskýrslunni segir að sumarið 2008 einkenndist almennt af „reddingum“, verið var að bæta lausafjárstöðu Landic Property og tengdra félaga eða framlengja gjaldfallin lán og afborganir. Í fundargerð áhættunefndar Glitnis frá 2. júlí 2008, og segir frá í rannsóknarskýrslunni, kemur fram tillaga um að Landic Property fái 100 milljóna danskra króna lán til eins árs vegna sölu á Keops Developmens, dótturfélags Landic Property sem hélt um eignina í Keops.

Í fundargerð frá 27. ágúst 2008 segir að Landic Property fái peningamarkaðslán að fjárhæð 100 milljónir danskra króna til að leysa lausafjárvanda í Keops Development. „Lánið á að greiðast 5. okt. með innistæðu á reikningi í Sparkassen Sjælland.“

Þá segir í fundargerð frá 23. September 2008 að 100 milljónir danskra króna ,sem séu á reikningi í Sparkassen verði notaðar í rekstur Keops í stað þess að greiða skammtímalán hjá Glitni. „Landic Property og tengd félög; framlengingar á öllum lánum sem eru á gjalddaga ásamt vaxtagreiðslum alls 14,8 ma ISK. Einnig er aflétt allsherjarveði 1,1 ma ISK á eignir í Borgartúni 21 gegn greiðslu á láni 800 m. 100 m DKK sem eru á Escrow reikningi í Sparkassen verða notaðar í rekstur Keops í stað þess að greiða skammtímalán hjá Glitni.“

Landic Property sótti um greiðslustöðvun í apríl 2009 og hóf þá sölu á erlendum fasteignasöfnum. Í júní sótti Keops Development, auk önnur dönsk dótturfélög Landic Property í danmörku, um greiðslustöðvun hjá dómstólum í Kaupmannahöfn..