Áhorf á stóru bandarísku sjónvarpsstöðvarnar NBC, CBS og ABC, sem senda allt sitt efni út í opinni dagsskrá, hefur farið hraðminnkandi á undanförnum árum samhliða því að kapalstöðvum, sem byggja á áskriftargjöldum auk auglýsinga, hefur vaxið fiskur um hrygg.

Í grein í fréttaritinu The Economist kemur fram að áhorf á NBC sjónvarpsstöðina síðastliðin 10 ár hafi minnkað úr 10% í 5% á besta sjónvarpstímanum og áhorf á hinar stöðvarnar tvær minnkaði einnig mjög mikið.

Það er ekki svo að Bandaríkjamenn horfi minna á sjónvarp en áður, þvert á móti hefur það aldrei mælst meira. Áhorf á hvern íbúa nam 151 klukkustund á mánuði á síðasta ársfjórðungi 2008, samkvæmt mælingu Nielsen könnunarfyrirtækisins. Það gerir 5 klukkustundir á dag. Yfir 80% bandarískra heimila hafa aðgang að kapal- eða gervihnattasjónvarpi sem veldur því að framboð á sjónvarpsefni er mun meira en áður.

Stóru sjónvarpsstöðvarnar framleiða enn vinsæla þætti eins og American Idol og CSI sem njóta áhorfs yfir 20 milljóna manna reglulega. Það er þrefalt meira en bestu þættirnir á kapalstöðvunum geta státað af. Fram að þessu hafa stóru stöðvarnar náð að sannfæra auglýsendur um að þeir fái mest fyrir peningana með þvi að auglýsa þar sem áhorfið sé mest.

Þetta kann þó að vera að breytast. Þegar Emmy verðlaunin voru afhent síðast hrepptu þættir af kapalstöðvum flest verðlaunin. Það kann að hafa áhrif á hvaða augum auglýsendur líta kapalsjónvarp í framtíðinni sem auglýsingamiðil.

Efnahagslægðin hefur komið illa niður á sjónvarpsstöðvunum eins og vænta mátti. Þannig hafa tekjur af auglýsinum dregist saman um allt að 40% hjá staðbundnum stöðvum en margar þeirra eru í eigu stóru stöðvanna eða tengdar þeim. Nýjar  tölur um tekjutap stóru stöðvanna liggja ekki fyrir en það er einnig talið mjög mikið.