Líklegt er að verðbólgan fari hratt niður næstu misseri sem gefur tilefni til frekari lækkunar stýrivaxta. Gengi krónunnar, og þá sérstaklega veiking hennar í marsmánuði og síðustu daga, veldur þó nokkrum áhyggjum og getur hægt verulega á annars hröðu lækkunarferli stýrivaxta.

Þetta er samdóma álit þeirra sem Viðskiptablaðið hefur rætt við í morgun en sem kunnugt tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabankans ákvörðun sína um að lækka stýrivexti um 150 punkta í morgun og eru stýrivextir nú 15,5% eftir lækkunina. Þannig hafa stýrivextir lækkað um 250 punkta, úr 18% í 15,5% á einum mánuði.

Lækkunin í morgun er í takt við spár greiningaraðila á markaði sem flestir höfðu gert ráð fyrir 100 – 150 punkta lækkun. Eins og gefur að skilja hafa engar spár birst fyrir komandi vaxtaákvörðun í maí en það er álit þeirra sem Viðskiptablaðið hefur rætt við í morgun að ef gengi krónunnar helst stöðugt út þennan mánuð megi aftur gera ráð fyrir 100 – 150 punkta lækkun.

Veiking krónunnar gæti aukið verðbólguþrýsting

Eins og fram hefur komið í máli seðlabankastjóra og annarra forsvarsmanna Seðlabankans verður mikið kapp lagt á styrkingu krónunnar, stöðugleika og stefnt er að því að afnema gjaldeyrishöft þegar færi gefst til. Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun mars að gjaldeyrishöftin yrðu ekki afnumin fyrr en gengi krónunnar er orðið stöðugt og ítrekaði það sama á kynningarfundi peningastefnunefndar í Seðlabankanum fyrir stundu.

Eins og fram kom í rökstuðningi peningastefnunefndar í morgun er verðbólguþrýstingur á undanhaldi og telja viðmælendur Viðskiptablaðsins að svo verði næstu mánuði. Flestir setja þeir þó þann fyrirvara á að ef gengi krónunnar lækkar frekar má gera ráð fyrir verðlagshækkunum sem gæti aukið verðbólguþrýstinginn á ný.

Tveir mánuði í næstu vaxtagjalddaga

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins voru vaxtagjalddagar á jöklabréfum að andvirði 7,8 milljarða króna í mars sem er töluvert hlutfall miðað við daglega veltu á gjaldeyrismarkaði sem er um 3 milljarðar króna um þessar mundir.

Eins og áður hefur komið fram, meðal annars í máli fjármálaráðherra, er talið að veikingu krónunnar megi rekja til vaxtagreiðslna.

Nú eru hins vegar tveir mánuðir í næstu vaxtagjalddaga en það er ekki fyrr en í júní sem þeir koma til. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja fáa þætti koma til veikingu krónunnar en allra augu verði þó á gengi krónunnar næstu vikur og mánuði.