Ólíkt hafast þjóðirnar að - á meðan stýrivextir eru óbreyttir á Íslandi hafa Ungverjar og Tyrkir verið að lækka vexti sína en Ungverjar eru rétt eins og Íslendingar undir aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ragnar Þórisson, sjóðsstjóri hjá Boreas Capital, segir að þróun mála þar sýni að Íslendingar séu á rangri leið.

Ungverjar lækkuðu stýrivexti sína um 100 punkta þann 27. júlí síðastliðin og samkvæmt upplýsingum sem nú liggja fyrir um atkvæði vaxtanefndarinnar var seðlabankastjórinn Andras Simor borinn ofurliði en hann vildi lækka vexti minna. Ragnar sagði það athyglisvert að Ungverjar væru að lækka vexti því almennt væri litið svo á að staða þeirar værri verri en Íslendinga. Stýrivextir í Ungverjalandi eru nú 8,5%. Samkvæmt upplýsingum frá Reuters er stýrivaxtanefndin Ungverska bjartsýn á að ná verðbólgumarkmiðum sínum sem eru 3% langtímaverðbólga.

Tyrkir hafa einnig verið að lækka vexti sína og hafa um leið náð að styrkja gjaldmiðil sinn. Tyrkir hafa lækkað stýrivexti um 850 punkta á síðustu 8 mánuðum, niður í 8.25% og á meðan hefur tyrkneska líran styrskt. Ragnar sagðist hafa trú á að það sama myndi gerast hér ef stýrivextir væru lækkaðir.

,,Það þarf nýja fjárfesta til að kaupa íslensku krónuna til að hún styrkist en ekki þá sem eru fastir í kerfinu -eins og jöklabréfaeigendur sem græða á tá og fingri á þessum endalausu vöxtum," sagði Ragnar.