Fjölmargir útgefendur skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta í Kauphöllinni, hafa tekið þá ákvörðun að fresta birta ekki ársuppgjör sín og bera því fyrir sig að samkvæmt lögum sé félögum, sem eingöngu hafa skráð skuldabréf í Kauphöllinni, heimilt að birta ekki uppgjör sín ef fjárhæð nafnverðs eininga skuldabréfanna er að lágmarki jafngilt 4,6 milljónum króna eða 50 þúsund evrum.

Fjárhæðir samkvæmt ákvæðinu eru grunnfjárhæðir sem eru bundnar gengi evru þann 3. janúar 2007 eða á genginu 92,37 kr.

Meðal þeirra félaga sem ekki ætla að birta ársreikning sinn eru Straumur, Landic Property, Opin kerfi Group, Askar Capital, Exista, 365 hf., Kögun, Teymi, Stoðir (FL Group), Milestone og Atorka Group svo nokkur séu nefnd.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar segir í samtali við Viðskipablaðið að Kauphöllin muni fara fram á frekari skýringar frá félögunum. Hann telur að ekki hafi komið fram fullnægjandi upplýsingar en hvert atvik verði þó skoðað fyrir sig. Þetta ferli ætti að taka um tvær vikur að sögn Þórðar.

„Við fellum enga dóma og beitum ekki fjárvíti án þess að fá frekari skýringar á þessu,“ segir Þórður.

Útgefendur skuli gæta jafnræðis fjárfesta um aðgang að upplýsingum

Aðspurður um hvort frestun á birtingu ársreikninga skekki verðbréfamarkaðinn hér á landi segir Þórður að upplýsingagjöf félaganna sé mjög mikilvægt í núverandi ástandi á mörkuðum. Hann bendir á að þrátt fyrir að félögin hafi heimildir til þess í lögum að fresta birtingu muni útgefendur skuldabréfa engu að síður þurfa að gera grein fyrir fjárhagslegri afkomu sinni, jafnvel þó það sé ekki gert í formi ársreikninga.

Þá vísar Þórður til yfirlýsingar Kauphallarinnar frá því í gær þar sem fram kemur að þrátt fyrir að útgefendur skuldabréfa, þar sem nafnverð hverrar einingar á útgáfudegi jafngilti a.m.k. 50.000 evrum, séu undanþegnir reglulegri upplýsingaskyldu, hvílir engu að síður upplýsingaskylda á útgefendum samkvæmt öðrum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti.

„Markmið upplýsingaskyldu er að tryggja að fjárfestar hafi á hverjum tíma aðgang að nýjustu upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að geta myndað sér skoðun á fjárfestingarkostum sem í boði eru,“ segir í yfirlýsingu Kauphallarinnar en einnig er minnt á að útgefendur skuli gæta jafnræðis fjárfesta um aðgang að upplýsingum sem þessar reglur ná til.

Kauphöllin segir að umrædd grein -  sem útgefendur skuldabréfa hafa vísað til, til réttlætingar á því að birta ekki ársuppgjör – veiti takmarkað svigrúm til að fresta eða fella niður upplýsingagjöf um fjárhagslega afkomu útgefanda.

Allir fjárfestar eiga að sitja við sama borð

Þórður segir í samtali við Viðskiptablaðið að allir fjárfestar eigi að sitja við sama borð. Hann telur því afar óheppilegt að svo mörg félög sem raun ber vitni ætli að freista þess að birta ekki ársreikninga sína.

„Þetta hefur ekki gerst áður og kom satt að segja nokkuð á óvart,“ segir Þórður og bætir því við að þetta sé á skjön við það sem telst til eðli upplýsingalöggjafar.

„Menn vísa í aðstæður á mörkuðum en ég tel einmitt að vegna aðstæðna á mörkuðum nú sé mikilvægt að upplýsa frekar meira en minna um stöðu félaganna. Það væri mun þægilegra fyrir fjárfesta og markaðinn í heild að hafa allar upplýsingar fyrir hendi.“