*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 28. ágúst 2016 17:02

Fréttir af leiknum hreyfðu hlutabréfaverð

Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir stýrði framleiðslunni á risatölvuleiknum Star Wars Battlefront.

Alexander F. Einarsson
Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir er yfirframleiðandi hjá DICE.
Haraldur Guðjónsson

Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir er yfirframleiðandi hjá sænska tölvuleikjafyrirtækinu DICE og stýrði hún framleiðslu eins stærsta tölvuleiks síðasta árs, Star Wars Battlefront. Leikurinn hefur selst í yfir 14 milljónum eintaka, en DICE er í eigu tölvuleikjarisans Electronic Arts.

Það hlýtur að hafa verið krefjandi og spennandi að hafa yfirumsjón með Battlefront?

„Þetta var einn af allra stærstu tölvuleikjum síðasta árs og það var auðvitað ótrúlega krefjandi að mörgu leyti. Mér finnst ég hafa lært meira á þessum tveimur árum sem tók að búa til þann leik heldur en hinum tíu árunum í leikjabransanum og í raun bara frá því að ég útskrifaðist. Fréttir af tölvuleiknum sem þú ert að vinna að hreyfa hlutabréfaverð í fyrirtækinu sem þú ert að vinna hjá tiltölulega mikið. Það er auðvitað ofboðslega mikil pressa og það eru ótrúlega miklar væntingar gerðar til Star Wars heimsins. En við erum líka að vinna með Lucasfilm og markaðsteyminu hjá Electronic Arts og í rauninni er maður að vinna með ótrúlega mörgu fólki sem er á heimsmælikvarða í því sem það gerir. Það sem lætur mig helst „tikka“ í vinnunni er að vinna með kláru fólki og mér finnst það geðveikislega gaman.“

Star Wars er með risastóran og kröfuharðan aðdáendahóp. Fylgir því aukin pressa?

„Þetta er stærsta afþreyingarvörumerki í heimi og það eru auðvitað ótrúlega miklar væntingar sem aðdáendur Star Wars hafa. Við fundum vissulega fyrir því í gegnum vinnuna en á sama tíma fannst manni það líka svo mikill heiður að fá að taka þátt í þessari vakningu sem kemur í kjölfarið á því að Disney kaupir Star Wars og ákveður að gefa út nýjar myndir. Mér finnst sem nörd og aðdáanda mjög gaman að Star Wars-heimurinn sé að fara í gegnum þessa endurvakningu. Á sama tíma er ég viðskiptalega þenkjandi tölvuleikjaframleiðandi sem hefur ofsalega mikinn áhuga á því hvernig hugverkaþróun á sér stað, eins og þegar maður fylgist með því hvernig Marvel-heimurinn hefur verið þróaður undanfarin ár og hvernig Disney er núna að stjórna Star Wars. Annars vegar er verið að gefa út þrjár nýjar myndir í „trílógíu“ sem fara með söguna í nýja tímalínu og hins vegar stakar myndir sem víkka söguna út til hliðar. Force Awakens sló í gegn og Rogue One er mjög spennandi og ég finn það í gegnum mína samstarfsaðila að þeir eru mjög innvinklaðir í okkar þróun og fylgjast mikið með. Þeir gera kröfur um gæði og veita okkur leiðsögn en sjá samt sem áður til þess að við höfum nógu mikið frelsi til sköpunar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.