Blaðaútgefendur í Danmörku hafa tapað á bilinu 1,5 til 1,7 milljörðum danskra króna á fríblaðastríðinu undanfarin ár. Þetta kemur fram í danska viðskiptablaðinu Børsen í dag. Þeir sjái nú fram á enn meira tap í ljósi þess að Nyhedsavisen sé ekkert að leggja upp laupana.

Talið er, samkvæmt Børsen, að Nyhedsavisen hafi frá upphafi kostað 700 milljónir danskra króna. Þórdís Sigurðardóttir, stjórnarformaður Stoða Invest, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í vikunni að íslensku eigendurnir hefðu sett 450 milljónir danskra króna í verkefnið frá upphafi.

Kostnaður 24 timer að minnsta kosti 500 milljónir

Þegar forsvarsmenn Nyhedsavisen greindu frá áætlunum sínum fyrir um það bil tveimur árum að þeir hygðust koma á fót fríblaði í Danmörku, sem yrði dreift í öll hús líkt og Fréttablaðið, hófst fríblaðastríð fyrir alvöru þar í landi.

Áður en Nyhedsavisen hóf göngu sína hrinti Det Berlingske Officin af stað útgáfu fríblaðsins Dato og degi síðar hóf JP-Politikens Hus útgáfu fríblaðsins 24 timer. Fyrir á markaðnum voru fríblöðin MetroXpress og Urban, sem var dreift á götum úti.

Nyhedsavisen, sem leit fyrst dagsins ljós í október 2006, átti því ekki eitt fríblaðamarkaðinn í Danmörku eins og Fréttablaðið á Íslandi, til að byrja með. Samkeppnin hefur því verið hörð með tilheyrandi kostnaði og var Dato fyrsta blaðið sem gaf eftir. Útgáfu þess var hætt vorið 2007.

Í Børsen kemur fram að útlit sé fyrir að  24 timer í Danmörku muni kosta útgefendur sína um  26 milljónir danskra króna á þessu ári en fram til þess er talið að það hafi kostað eigendur sína um 500 milljónir danskra króna.

Þá er talið að Dato hafi kostað eigendur sína mikla fjármuni. Þegar það hætti að koma út skildi það eftir reikning upp á tæpar 200 milljónir danskra króna, samkvæmt Børsen.

Fríblöðin MetroXpress og Urban hafa einnig verið dýr.