Mikil óvissa hefur ríkt um framgang Doha-fríverslunarviðræðnanna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) eftir að upp úr viðræðunum slitnaði síðasta sumar. Vísbendingar eru hins vegar um að hægt verði að leysa einn helsta ásteytingarsteininn - landbúnaðarmálin - á komandi mánuðum, að mati Pascal Lamy, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í viðtali við Dow Jones-fréttastofuna á miðvikudaginn sagðist Lamy vongóður um að árangur muni nást í Doha-viðræðunum. Til þess að sú verði raunin sé nauðsynlegt að Bandaríkin, Evrópusambandið (ESB) og Indland sýni sveigjanleika þegar kemur að niðurgreiðslum til landbúnaðar, auk þess sem Indverjar verði að endurskoða fyrri afstöðu sína til innflutningstolla á iðnaðarvarning. Innflutningstollar Indverja á slíkum varning eru mun hærri en gengur og gerist.

Bandarísk stjórnvöld hafa nú þegar tekið skref til þess að liðka fyrir frekari viðræðum, en á dögunum var tilkynnt um fyriráætlanir um aukna markaðsvæðingu landbúnaðar þar í landi. Aðrir þátttakendur viðræðnanna höfðu meðal annars gagnrýnt Bandaríkjamenn fyrir stórfelldar niðurgreiðslur til landbúnaðarins.

Lamy lagði aftur á móti mikla áherslu á að eitthvað þurfi að þokast áfram í viðræðunum fyrir 1. júní í sumar. Ástæðan fyrir því er fremur einföld: Í sumar mun umboð George Bush Bandaríkjaforseta frá þinginu til að gera fríverslunarsamninga renna út. Óljóst er hvort að þingmeirihluti demókrata muni samþykkja endurnýjun umboðsins en margir í þeirra röðum eru andvígir fríverslunarsamningum. Ljóst er að viðræður án þátttöku Bandaríkjamanna eru marklausar og undirstrikar sú staðreynd hversu brýnt er að viðræðurnar fari á skrið fljótlega.


Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn geri sig líklega til að stíga skref sem gætu liðkað fyrir málum kveður við annan tón austan megin við Atlantshafið. Á mánudaginn beittu frönsk stjórnvöld neitunarvaldi á tillögu annarra iðnaðarráðherra ESB-ríkjanna um að stefna bæri að endanlegri niðurstöðu viðræðnanna á þessu ári. Lamy telur þó afstöðu Frakka ekki skipta höfuðmáli fyrir framgang viðræðnanna þar sem að einróma samþykki ESB sé ekki forsenda samninga á vettvangi WTO.

Lamy er einnig á því að margt bendi til þess að hægt verði að leysa úr þeirri flækju sem viðræðurnar eru komnar í. Hann segir að á viðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss í síðasta mánuði hafi borið á því meðal ráðamanna að þeir væru farnir að túlka mikilvægi fríverslunarviðræðnanna út frá fleiri þáttum en viðskipta- og efnahagsþáttum. Menn séu einnig í auknum mæli orðnir meðvitaðir um mikilvægi þeirra fyrir þróun öryggismála á alþjóðavettvangi í ljósi þeirrar vaxandi spennu sem einkennir alþjóðastjórnmál um þessar mundir.