Frjálsi lífeyrissjóðurinn var valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki við hátíðlega athöfn í Barcelona í gær. Tímaritið Investment Pension Europe veitti verðlaunin.

Í umsögn dómnefndar IPE kom meðal annars fram að samhliða öflugri áhættustýringu hafi Frjálsi lífeyrissjóðurinn sýnt framsýni í fjárfestingarákvörðunum sem hefur skilað sér í góðri ávöxtun og ánægðum sjóðfélögum.

Þetta er þriðja árið í röð sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn vinnur verðlaun IPE.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er rekinn af Arion banka, er með um 51 þúsund sjóðfélaga og eru eignir sjóðsins um 165 milljarðar.

Tímaritið veitir þeim lífeyrissjóðum verðlaun sem að mati dómnefndar IPE hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu.