Óreglulegur kostnaður í tengslum við kaupin á Royce einkennir uppgjör Össurar á þriðja ársfjórðungi segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Í heild nemur þessi óreglulegi kostnaður 6,7 milljónum bandaríkjadala og er annars vegar áætlaður kostnaður við endurskipulagningu og samþættingu Royce við rekstur Össurar (4,1 milljónir dala) og hins vegar áhrif af því að færa vörubirgðir Royce upp í söluverð en við það hækkar kostnaðarverð seldra vara um 2,6 milljónir dala.

"Össur hafi gefið vísbendingu um óreglulega kostnaðinn og var í afkomuspá okkar miðað við 5 m.USD. Kostnaðurinn var því hærri en búist var við. Á móti kemur 1 m.USD bakfærsla á árangurstengingu sem færð er undir aðrar tekjur. Um er að ræða hluta af kaupverði á fyrirtæki frá árinu 2000 en tilætlaður árangur náðist ekki," segir í Morgunkorni.

Til viðbótar eru afskriftir sérstaklega háar vegna niðurfærslu óefnislegra eigna í kjölfar kaupanna á Royce. Rekstur Össurar og Royce gekk vel á tímabilinu. Sala var 2-3% yfir því sem við áttum von á og EBITDA framlegð í góðu samræmi við væntingar (22% hjá Royce og 26% hjá Royce sem er hvoru tveggja innan við prósentustig frá forsendum í spá). Fjármagnskostnaður var nokkru hærri en við reiknuðum með en skattaliðir hins vegar talsvert hagstæðari. Í heild var hagnaður tímabilsins 0,8 m.USD samanborið við 2,0 m.USD spá.