*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 11. júní 2020 13:05

Frumvarp sem auðveldar íbúðarkaup

Frumvarp um hlutdeildarlán, sem auðvelda á tekjulágum að eignast íbúð, var lagt fram í dag, miðað er við 5% eigið fé.

Ritstjórn
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lagði fram frumvarp að hlutdeildarláninu í dag.
Aðsend mynd

Nýtt hlutdeildarlán hefur verið lagt fram á Alþingi í dag en lánin eiga að brúa bilið á milli lána veittum af fjár­mála­fyr­ir­tækjum og lífeyrissjóðum ann­ars vegar og kaup­verðs hins veg­ar. Frumvarpið er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hlutdeildarlán eru ólík hefðbundnum fasteignalánum að því leyti að ríkið lánar tekjulágum fyrstu kaupendum ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem þeir hyggjast kaupa. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum, þó bera þau vexti hækki tekjur lántaka á lánstímanum umfram ákveðin tekjumörk.

Lántakendurnir skulu endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár. Að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki þegar verið seld. Endurgreiðsla af hlutdeildarláninu miðast við nýja fasteignaverðið og nýtur ríkið því góðs af hækkun fasteignaverðs.

Tekjulágir leggja að lágmarki til 5% eigið fé

Hlutdeildarlánin munu virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun sem fer á 1. veðrétt og 20% hlutdeildarlán hjá ríkinu sem fer á 2. veðrétt.

Í ákveðnum tilvikum geta hlutdeildarlán farið upp í allt að 30% af verði fasteignar ef lántakendur uppfylla skilyrði sem sett verða. Fasteignalán lánastofnunarinnar lækkar þá á móti niður í allt að 65% af kaupverði.

Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd en úrræðið var kynnt á fundi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í dag en Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra lagði fram frumvarpið.