Alþingi samþykkt í dag stjórnarfrumvarp sem varðar skattlagningu á söluhagnaði lögaðila af hlutabréfum. Samkvæmt frumvarpinu, sem nú er orðið að lögum, er söluhagnaðurinn skattfrjáls.

Frumvarpið var samþykkt með 33 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gegn 13 atkvæðum þingmanna VG og Frjálslynda flokksins. Þingmenn Framsóknarflokks sátu hjá.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður efnahags- og skattanefndar þingsins, sagði í lokaatkvæðagreiðslunni að með lögunum væri verið að gefa atvinnulífinu merki um að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir stæðu með því; merki um að fyrirtækin gætu skilað góðum hagnaði og haft fólk  á háum launum sem greiddi háa skatta í ríkissjóð.

„Það er mjög mikilvægt að þjóðin hafi gott og heilbrigt atvinnulíf sem geti borgað há laun, geti borgað háa skatta og starfsmennirnir geti borgað háa skatta inn í ríkissjóð,“ sagði hann.