Viðskiptaráðuneytið hefur beint þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að þau framlengi frystingu myntkörfulána, sérstaklega vegna húsnæðislána, þar til varanleg lausn verði fundin á þeim vanda sem hækkun myntkörfulána á húsnæði veldur heimilum í landinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu en tillaga viðskiptaráðherra þessa efnis var samþykkt í ríkisstjórn í morgun.

Í bréfi viðskiptaráðuneytisins, dags. 14. október sl., til banka í eigu ríkisins og annarra fjármálafyrirtækja komu fram tilmæli og óskir  ríkisstjórnar Íslands um að frystar væru afborganir skuldara á myntkörfulánum, sérstaklega vegna húsnæðislána þar til ró kæmist á gjaldeyrismarkaðinn, kæmi fram ósk þar að lútandi frá skuldara.

Í bréfi ráðuneytisins til banka í eigu ríkisins, dags. 21. október sl. var tekið fram að í tilmælunum fælist að um bráðabirgðaráðstöfun væri að ræða, óháð fjárhagsstöðu skuldara, vegna óstöðugleika á gengi krónunnar.  Þá kom fram að mikilvægt væri að bankarnir lágmörkuðu þann kostnað sem skuldari þyrfti hugsanlega að greiða vegna þessa sem og einfölduðu þau ferli sem til þurfi að koma.

Í kjölfarið gripu fjármálafyrirtæki til frystingar á gengistryggðum lánum. Sumar þeirra frystinga renna út um næstu mánaðamót.

Þá kemur fram að nú sé unnið að varanlegri lausn á þeim vanda sem hækkun myntkörfulána á húsnæði veldur heimilum í landinu og vindur þeirri vinnu ágætlega fram samkvæmt tilkynningunni.

„Í ljósi framangreinds samþykkti ríkisstjórnin að viðskiptaráðuneytið komi þeim óskum til fjármálafyrirtækja að þau framlengi frystingu myntkörfulána, þar til varanleg lausn hefur náð fram að ganga, án kostnaðar fyrir skuldara,“ segir í tilkynningunni.