Þrátt fyrir að samsteypustjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna verði fagnað á Íslandi er ólíklegt að alþjóðlegir fjárfestar verði jafn spenntir fyrir henni.

Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Financial Times (FT) af stjórnarskiptunum á Íslandi.

Blaðið segir að vinstri stjórn muni eiga erfitt með að koma sér saman um mörg málefni, svo sem inngöngu í Evrópusambandið og samstöðu um að fylgja áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en blaðið greinir frá því að Samfylkingin vilji styðja áætlun sjóðsins á meðan VG vilji semja upp á nýtt við sjóðinn.

Í upphafi fréttar FT um málið kemur fram að Ísland sé nú, með beygjunni til vinstri, að binda endi á 17 ára tilraunartíma frjáls markaðshagkerfis sem gert hafi Ísland að einni ríkustu þjóð heims en jafnframt skapað aðstæður sem leitt hafi til hruns fjármálakerfisins í fyrra.

Blaðið segir Sjálfstæðisflokkinn, sem síðustu ár hafi verið undir stjórn Geirs H. Haarde og þar á undan hins „umdeilda“ seðlabankastjóra Davíðs Oddssonar, vera arkitektinn af því að létta á höftum og auka frelsi sem hefði á sínum tíma hefði rofið einangrun Íslands og stuðlað að frjálsu markaðshagkerfi. Það hafi síðan leitt til aukinnar lántöku, þá helst með fasteignabólunni.

Sjá frétt FT.