*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 25. júní 2015 18:45

FT: „Smábæjarlöggan sem fangelsaði bankamennina"

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, er í kastljósi Financial Times. Ísland ætti að vera fyrirmynd í næsta bankahruni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

„Ólafur Hauksson virðist ólíkleg hetja í heimi eftir fjármálakreppu. Árið 2008, þegar naumlega tókst að afstýra heimskreppu og heimalandið Ísland slapp við stórslys, var Ólafur lögreglustjóri í bæ sem taldi 6.500 íbúa." Á þessum orðum hefst umfjöllun Financial Times um Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara.

„Stærsta mál hans fram að því snéri að tilraun til manndráps skammt utan Reykjavíkur. Þegar embætti sérstaks saksóknara var komið á laggirnar árið 2008, vildi enginn taka við því. Ólafur var eini umsækjandinn um starfið þegar það var auglýst í annað sinn. Hann hefur síðan gert það sem engum öðrum saksóknara hefur tekist: Að koma yfirmönnum banka í fangelsi fyrir sakir sínar fyrir fjármálahrunið," segir jafnframt í umfjölluninni.

Sendi skýr skilaboð

„Það er mikilvægt að senda skýr skilaboð um saknæmina og að samfélagið sé tilbúið til að bregðast við - að það leyfi ekki fáeinum innan þess að haga sér þvert á reglur og skyldur," er haft eftir Ólafi.

Í umfjöllun Financial Times kemur fram Ísland hafi sent kröftug skilaboð til annarra þjóða. Í þeim felist að enginn sé hafinn yfir lög og að jafnvel valdamiklir bankamenn geti þurft að lúta í gras fyrir réttarríkið. Þar segir að þjóðir heims skyldu líta til Íslands sem fyrirmynd í næsta fjármálahruni, þegar til þess kemur.

Áskrifendur að Financial Times geta lesið umfjöllunina í heild sinni hér.