Nokkrir tvísköttunarsamningar eru í farvatninu á milli Íslands og annarra ríkja samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.

Samningaviðræður Íslands við Albaníu um gerð tvísköttunarsamnings munu hefjast hér á landi í byrjun október nk.

Þá liggur fyrir að stjórnvöld í Grikklandi og Rúmeníu hafa fyrr á þessu ári fullgilt þá tvísköttunarsamninga sem gerðir voru við íslensk stjórnvöld. Þeir samningar ættu því að óbreyttu að koma til framkvæmda frá og með næstu áramótum.

Nýr samningur við Bandaríkin er enn til meðferðar í bandaríska þinginu og óljóst hvort Bandaríkjamenn munu fullgilda samninginn af sinni hálfu fyrir næstu áramót.

Þá var nýverið haldinn í Reykjavík fyrsti fundur samninganefnda Íslands og Katar um gerð tvísköttunarsamnings milli landanna. Samningagerðin komst vel á veg, þó að ýmis atriði samningsins sé enn óafgreidd.

Áætlað er að næsti fundur landanna fari fram í Doha á fyrri hluta næsta árs. Að sögn ráðuneytismanna eru bundnar vonir við að samningagerð ljúki á þeim fundi.