*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 13. júlí 2019 13:35

Á fullt í gullframleiðslu eftir tvö ár

Eldur Ólafsson segir að AEX Gold stefni á að gullnáma á Grænlandi verði komin í fulla framleiðslu eftir um það bil tvö ár.

Sveinn Ólafur Melsted
Eldur segir að í ár verði tekin um það bil 3.000 tonn af efni sem inniheldur gull, sem sjá má á myndinni, út úr námunni.
Eva Björk Ægisdóttir

Eldur Ólafsson er forstjóri kanadíska námu fyrirtækisins AEX Gold Inc., en hann á jafnframt 10% eignarhlut í félaginu. Félagið sérhæfir sig í gullgreftri á Grænlandi og var skráð á hlutabréfamarkað í Toronto í Kanada fyrir um tveimur árum. 

Eldur segir að fyrirtækið stefni á að náman í Nalunaq verði komin í fulla framleiðslu eftir um það bil tvö ár. „Fyrsta efnið sem inniheldur gull frá námunni fer út í haust. Við köllum það samt ekki framleiðslu heldur stórt sýni (e. bulk sample). Á næsta ári setjum við svo meiri kraft í þetta og verðum farin að mynda ganga. Þegar við erum farin að gera ganga, þá erum við að fylgja gullæðinni og ná í efnið í stærri stíl. Þegar ég segi að við verðum í fullri framleiðslu eftir tvö ár, þá meina ég ekki að á meðan verðum við í engri framleiðslu, þar sem þessi vinna mun væntanlega skila gulli. Þegar framleiðslan verður komin á fullt munum við vinna gull í mun meira magni en við þessar sýnatökur. Núna í ár erum við að fara að taka um það bil 3.000 tonn af efni út úr námunni. Hugmyndin er að vinna efnið sjálf eða flytja það til annarra vinnsluaðila. Seinna á þessu ári erum við að fara að senda dróna í gegnum hana alla til þess að mynda hana í bak og fyrir, til þess að við getum skilið hvernig misgengin í námunni virka. Á næsta ári ætlum við svo að hefja vinnu neðanjarðar með því að gera ganga og fylgja æðinni eftir bestu getu. Við erum með eign sem við viljum koma í tekjuflæði á næstu tveimur árum. Svo munum við nýta tekjuflæðið frá þessu hlutfallslega í önnur leyfi á staðnum, til þess að búa til margar litlar námur meðfram gullæðinni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér