Fimm til sjö manna hópur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er staddur hér á landi til að kynna sér stöðu mála. Þetta staðfestir Bolli Þór Bollasson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.

Paul M. Thomsen fer fyrir hópnum.

Fulltrúar frá IMF hafa ekki verið hér á landi frá því í október en í millitíðinni samþykkti stjórn sjóðsins lán til Íslendinga á grundvelli yfirlýsingar um stefnu í efnahagsmálum.

„Þeir munu hitta helstu stofnanir og helstu aðila sem koma að þessu samkomulagi," segir Bolli og á þar við fyrrnefnda yfirlýsingu um áætlun í efnahagsmálum.

Hópurinn frá IMF kom í gærmorgun og fer á föstudaginn. Fyrirhugað er að hann komi aftur í lok febrúar en þá verður gerð fyrsta formlega úttektin á áætluninni.