Félagsfundur hefur verið boðaður hjá Félagi fréttamanna á Ríkisútvarpinu, í kvöld. Hallgrímur Indriðason, formaður félagsins, segir að rædd verði uppsögn fréttastjórans Óðins Jónssonar sem sæti á í framkvæmdastjórn RÚV.

Framkvæmdastjórninni allri var sagt upp á þriðjudag í skugga meiri taprekstrar RÚV á yfirstandandi rekstrarári en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði á fundi með starfsmönnum RÚV á þriðjudag að allt væri undir niðurskurðarhnífnum. Þá verður stokkað upp í rekstrinum, sum svið lögð niður en önnur sameinuð og styrkt. Hann segir störf framkvæmdastjóra verða auglýst um helgina og að stefnt sé á að ráða í þau um miðjan apríl.