*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 1. nóvember 2004 09:32

Fundu 500 tilvik um samráð

forstjórar olíufélaganna héldu reglubundna samráðsfundi

Ritstjórn

Það er niðurstaða Samkeppnisstofnunar að í máli hennar gegn olíufélögunum sé um það að ræða að olíufélögin þrjú, Olíufélagið, Olís og Skeljungur, hafa haft með sér víðtækt og umfangsmikið samfellt samráð sem brotið hefur gegn 10. gr. samkeppnislaga. Brot olíufélaganna felst í þeim samstilltu aðgerðum og/eða samningum sem lýst er í ákvörðun samkeppnsráðs en samráðið hafði það að markmiði að draga úr samkeppni milli félaganna í viðskiptum aðallega með fljótandi eldsneyti, smurolíu og gas. Í rannsókn sinni fann Samkeppnisstofnun 500 tilvik um ólögmætt samráð.

Í höfuðdráttum fólst eftirfarandi í hinu samfellda samráði olíufélaganna:
- Samráð um verðbreytingar á fljótandi eldsneyti, gasi, smurolíu og tengdum
vörum.
- Samráð um aðgerðir til að auka álagningu og bæta framlegð, þ.m.t.
aðgerðir til að draga úr afslætti.
- Samráð vegna útboða tiltekinna viðskiptavina.
- Markaðsskipting og eftir atvikum verðsamráð vegna sölu til einstakra
viðskiptavina, tiltekinna hópa viðskiptavina eða á einstökum landsvæðum.

Til að framkvæma þetta samráð áttu olíufélögin í tíðum og skipulögðum samskiptum sín á milli þar sem skiptst var á skoðunum og upplýsingum, athugasemdir og tillögur oru gerðar og ákvarðanir teknar. Í samantekt sem ekki er tæmandi og birt er í ákvörðun samkeppnisráðs koma fram um 500 tilvik ólögmæts samráðs á því tímabili sem til rannsóknar hefur verið um verð og verðmyndun, um útboð og gerð tilboða og um markaðsskiptingu eins og segir í skýrslu Samkeppnisstofnunar.

Stjórnendur á svipuðum stjórnunarstigum hjá öllum félögunum áttu í miklum samskiptum, bæði með fundahöldum, með tölvupósti, í síma og með
því að skiptast á minnisblöðum eða bréfum. Þannig hittust t.d. reglulega eða áttu í annars konar samskiptum þeir framkvæmdastjórar félaganna sem fóru með fjármál og þá um leið verðlagningu á eldsneyti.

Þeir framkvæmdastjórar sem fóru fyrir sk. stórviðskiptum olíufélaganna, þ.e. viðskiptum við stærri viðskiptamenn, báru reglulega saman bækur sínar og höfðu samráð um að gera tilboð þegar viðskiptavinir efndu til útboða til að lækka eldsneytiskostnað. Þá er og upplýst að framkvæmdastjórar markaðssviða smásölu hjá félögunum hittust oft á hverju ári og ræddu ítrekað um t.d. verð og önnur samkeppnismálefni. Jafnframt var algengt að starfsmenn félaganna snéru sér hver til annars og kvörtuðu yfir því þegar þeir töldu að verið væri að brjóta það sem búið var að ákveða í samráðinu. Eru fjölmörg dæmi um þetta í gögnum málsins.
Æðstu stjórnendur olíufélaganna komu að hinu samfellda samráði og brotið var skipulagt og markvisst.

Haldnir voru reglubundnir fundir forstjóra félaganna þar sem fjallað var um stærri mál í samráði olíufélaganna og reynt að leysa ágreining þegar hann kom upp. Rætt var þannig um forstjórafundi ?skv. hefðbundinni hringrás? en það felur í sér að forstjórarnir hittust til skiptis hver hjá öðrum. Einnig var rætt um gagnkvæma ?ásökunarfundi forstjóra?. Forstjórarnir fólu síðan undirmönnum sínum að framkvæma það sem ákveðið hafði verið á forstjórafundum. Forstjórar félaganna ákváðu einnig verklag eða samskiptamáta sín á milli til þess að tryggja framgang
samráðsins.