Kanadíski hagfræðingurinn Dr. Michael Walker, stofnandi Fraser stofnunarinnar í Kanada, mun á morgun, mánudaginn 17. september, halda fyrirlestur á fundi RSE á Grand Hótel Reykjavík um stöðu efnahagslegs frelsis á Íslandi.

Tilefni fundarins er útgáfa samanburðarskýrslu um efnahagslegt frelsi þjóða, hinnar svonefndu Frelsisvísitölu, sem Fraser stofnunin lætur reikna út ár hvert, en um er að ræða einn útbreiddasta og áreiðanlegasta mælikvarða á efnahagslegt frelsi í heiminum.

Í tilkynningu frá RSE kemur fram að í skýrslu síðasta árs tóku skýrsluhöfundar fram að Ísland væri í hópi fimm ríkja þar sem mest hefði dregið úr efnahagslegu frelsi frá árinu 2000. Í þessum hópi ríkja voru jafnframt Argentína, Bandaríkin, Írland og Venesúela. Á fundinum mun Dr. Walker gera nánari grein fyrir niðurstöðum skýrslunnar 2012 fyrir Ísland.

Að loknu erindi Dr. Walkers mun Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA og formaður stjórnar Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, fjalla stuttlega um niðurstöður skýrslunnar og leggja mat á hvað Íslendingar geta gert til að auka frelsi í efnahagsmálum og bæta stöðu sína í alþjóðlegum samanburði.

Fundurinn hefst kl. 8.30 í fyrramálið og búast má við að honum ljúki um kl. 10. Aðgangur er ókeypis.