Þeir sem reka verslanir og veitingastaði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þurfa ekki að leggja virðisaukaskatt á vörur sínar. Vara í efra skattþrepi virðisaukaskatts ætti því til dæmis að vera um fimmtungi ódýrari í flugstöðinni en annars staðar.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar, segir í samtali við Túrista að reglulega séu gerðar kannanir í flugstöðinni til þess að tryggja að verðlagið endurspegli skattleysi. Segir hann jafnframt dæmi um að rekstraraðilar hafi verið með of há verð. Þá hafi verið óskað skýringa og verðið í kjölfarið lagfært.

Rekstur á fríhafnarsvæðinu var nýlega boðinn út og tilkynnt í vikunni að nýiir aðilar myndu þar taka við rekstri. Að sögn Hlyns þurftu þátttakendur í útboðinu að skila inn upplýsingum um verðstefnu og voru þeir meðal annars dæmdir út frá henni. Segir hann að áfram verði séð til þess að rekstur í flugstöðinni taki mið af því að rekstur sé laus við virðisaukaskatt.