Í dag 8. júlí, eru liðin 90 ár frá því að Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi, en hún var landskjörin alþingismaður 1922-1930.

Af því tilefni hefur forseti Alþingis boðið öllum þeim konum sem tekið hafa sæti á Alþingi til hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþingi.

Konur hlutu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis með stjórnarskrárbreytingu sem staðfest var 19. júní 1915. Þær gátu fyrst tekið þátt í kosningum í landskjöri í ágúst árið 1916 og í kjördæmakosningum síðar það sama ár. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, fyrsta konan til að bjóða sig fram til Alþingis, var þá kjörin varamaður landskjörinna en tók aldrei sæti á Alþingi. Hefði ekki verið fyrir útstrikanir hefði Bríet orðið fyrsta konan til að taka sæti á þingi.

Sex árum síðar varð Ingibjörg H. Bjarnason fyrsta íslenska konan sem kjörin var til Alþingis. Það var í landskjöri þann 8. júlí 1922. Ingibjörg bauð sig þá fram fyrir Kvennalistann en gekk svo í raðir íhaldsmanna og seinna sjálfstæðismanna. Guðrún Lárusdóttir varð fyrst kvenna til að hljóta kosningu í almennum alþingiskosningum, þ.e. 1934, en hafði áður verið landskjörin 1930.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra varð árið 1978 tíunda konan til að vera kosin til setu á Alþingi. Hún hefur jafnframt lengstu þingsetu kvenna á Alþingi en hún hefur setið á Alþingi samfellt síðan 1978, 30 ár og 10 mánuði (miðað við kjördag 1978 og 2009).

Í alþingiskosningunum 25. apríl 2009 náðu 27 konur kjöri og varð hlutfall kvenna á þingi þá 42,9%.

Heimild: Heimasíða Alþingis