Skilanefndir, slitastjórnir og æðstu stjórnendur slitabúa Glitnis, Kaupþings og LBI hf. hafa greitt sér meira en 5.170 milljónir króna í þóknanir frá árinu 2009. Eins og sakir standa er héraðsdómurum í sjálfsvald sett hvaða lögfræðingar eru skipaðir skiptastjórar, uppfylli þeir almenn hæfisskilyrði til þess.

Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, segir kosti fyrirkomulagsins vera þá að skipunin geti gengið hratt fyrir sig, en slíkt getur verið nauðsyn þegar skipti á þrotabúum eru annars vegar.

Sigurður Tómas Magnússon, fyrrum dómari, ríkissaksóknari og sérfræðingur í refsirétti, tekur undir sjónarmið um að málshraði geti skipt miklu máli þegar gjaldþrotaskipti eru annars vegar. Engu að síður sé núverandi fyrirkomulag ógagnsætt. Aðhald skorti og erfitt að spá fyrir um hvort tengsl dómara og skiptastjóra hafi með skipun þeirra að gera í einstaka tilfellum. Það sé óheppilegt þegar hagsmunirnir eru jafn miklir og raun ber vitni.

„Þetta er eins og að detta í lukkupottinn. Þarf ekki að fara að gera þetta með agaðri og sýnilegri hætti?“ spyr Sigurður Tómas. Hann tekur þó fram að í þessum orðum felist ekki fullyrðing um að illa hafi verið staðið að skipun slitastjórna Glitnis, Kaupþings og LBI.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .