Danmörk hefur framlengt gildistíma ríkisaðstoða sinna sem miða að því að hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að komast í gegnum þau slæmu áhrif sem kórónuveiran hefur í för með sér. Verður enn meiri peningur settur í að aðstoða áðurnefnda aðila eða um 100 milljarðar danskra króna (um 2116 milljarðar íslenskra króna). Bloomberg greinir frá.

Ríkisstjórn Dana féllst á tillögu allra þingflokka á danska þinginu um að aðstoðin yrði í boði til 8. júní, en upphaflega stóð til að hún yrði í boði mánuði skemur.

Fyrirtæki sem hyggjast greiða út arð, festa kaup á eigin bréfum eða eru með skráð aðsetur í skattaskjólum eiga ekki rétt á að sækja um aðstoð frá danska ríkinu. Eftir að ákveðið var að setja 100 milljarða danskra króna til viðbótar inn í aðgerðapakkann mun heildarfjárhæð ríkisaðstoðarinnar nema um 400 milljörðum danskra króna.

Nicolai Wammen, fjármálaráðherra Danmerkur, segir að þessi 100 milljarða króna innspýting muni að hluta til vera fjármögnuð með útgáfu ríkisskuldabréfa.