Menntakönnun Samtaka atvinnulífsins, sem gerð var í janúar 2013, staðfestir nær helmingi meiri þörf atvinnulífsins fyrir raun-, tækni- og verkfræðimenntaða en aðra háskólamenntun.

Í frétt á vefsíðu SA kemur fram að fyrirtæki, sem telja sig hafa þörf á að bæta við háskólamenntuðum starfsmönnum á næstu þremur árum, þurfa jafnmargt fólk með raun-, tækni- og verkfræðimenntun og alla aðra háskólamenntun. Tæpur helmingur fyrirtækjanna í könnuninni telja sig þurfa fleiri háskólamenntaða starfsmenn.

Áhugavert er að skoða tölur Hagstofunnar um útskriftarnema í háskólum í þessu ljósi. Brautskráðir í raunvísindum, stærðfræði tölvunarfræði, verkfræði og mannvirkjagerð voru 16% útskrifaðra 2010 og 18% 2011.