Í augum stjórnenda Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum (VSV) ógnar ekkert rekstri félagsins meira en hugmyndir um fyrningu aflaheimilda. Niðurstaða athugunar þeirra á helstu ógnum og tækifærum í rekstrinum sýndi að fyrningarleiðin ógni meira rekstri þess en þróun afurðaverðs, markaðsaðstæðna, náttúrunnar eða fjármálakerfis heimsins.

Fram kemur í ársreikningi VSV að verði fyrningarleiðin að veruleika muni það " ... augljóslega breyta miklu um gjaldfærni félagsins og tefla í tvísýnu virði hlutafjár í félaginu, sem og greiðslugetu þess til núverandi lánardrottna."

Sveifla fyrningarsvipunni

"Þjóðin þarf vissulega á því að halda að sem flest fyrirtæki gangi vel og sjái fólki fyrir atvinnu og þjóðinni fyrir gjaldeyristekjum. Hins vegar virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekkert hafa lært og engu hafa gleymt. Þeir sveifla áfram fyrningarsvipu sinni yfir sjávarútveginum og það er ógn sem við hljótum að taka mjög alvarlega," segir Sigurgeir B. Kristjánsson, framkvæmdastjóri VSV, í tilkynningu.