Skiptastjóri BGE eignarhaldsfélags krefst þess að fyrrverandi starfsmenn Baugs, þar af fjórir stjórnendur, greiði skuldir sem þeir stofnuðu til við BGE. Þeir eru allir í persónulegum ábyrgðum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv.

Í frétt Rúv kom fram að Bjarni S. Ásgeirsson skiptastjóri BGE ætli að láta reyna á innheimtu hjá 15 stærstu skuldurum en alls gerðu 40 starfsmenn Baugs slíka samninga. Jón Ásgeir Jóhannesson (fv. aðaleigandi), Gunnar Sigurðsson (fv. forstjóri), Stefán Hilmarsson (fv. aðstoðarforstjóri) og Skarphéðinn Berg Steinarsson (fv. framkvæmdastjóri) eru meðal þeirra sem eiga von á innheimtubréfi frá skiptastjóra fyrir næstu mánaðarmót. Þeir fjórir skulda langstærstan hluta heildarupphæðarinnar og nemur rúmlega milljarði króna.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í þessum mánuði að BGE eignarhaldsfélag hafi sérstaklega verið stofnað í nóvember 2003 til að halda utan um kaupréttarsamningakerfi starfsmanna Baugs. Kerfið virkaði þannig að Kaupþing lánaði Baugi gegn veði í hlutabréfum félagsins og Baugur lánaði féð síðan áfram til starfsmanna Baugs.

Þá greindi Viðskiptablaðið frá því að skiptastjóri BGE, Bjarni S. Ásgeirsson, vinni að því að höfða prófmál gegn þeim 40 fyrrverandi starfsmönnum Baugs sem enn voru með lán hjá BGE þegar félagið fór í þrot. Allar eignir BGE urðu verðlausar þegar að baugur fór í þrot vorið 2009.

Segir í frétt Rúv í kvöld að búast megi við málaferlum vegna skuldanna. „ Starfsmennirnir halda því fram að samningarnir sem þeir gerðu á sínum tíma við Kaupþing, Baug og BGE haldi en þar segir að ekki verði gengið á persónulegar eigur þeirra fari allt á versta veg.  Sú varð hins vegar raunin og skiptastjórinn telur að þessir samningarnir haldi ekki gagnvart þrotabúum þeirra félaga sem að samningsgerðinni stóðu en þau eru öll farin á hausinn. Starfsmennirnir töldu samningana svo skýra að þeir sáu ekki ástæðu til þess að flytja hluti sína í félög til að losna undan áhættu. Þeir eru því allir í persónulegum ábyrgðum og innheimtan er sem reiðarslag fyrir fjárhag margra þeirra," segir í fréttinni.