Steingrímur Erlingsson, fyrrverandi forstjóri Fáfnis Offshore, hefur stefnt fyrirtækinu. Hann krefst þess að fá greiddan sex mánaða uppsagnafrest og orlof að því er kemur fram í frétt Fréttablaðsins um málið. Stjórnendur Fáfnis segja hins vegar að forstjórinn fyrrverandi hafi ekki staðið við skyldur sínar á uppsagnarfresti og hafa gert gagnkröfu.

Gagnkrafan byggist á því að Steingrímur hafi ekki skilið við félagið líkt og samningurinn hljómaði upp á og að hann hafi tekið tölvu í eigu fyrirtækisins og brotið á trúnaðarskyldu. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. júní næstkomandi. Steingrímur var rekinn frá Fáfni Offshore í lok árs 2015, og þá tók Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis við.