Alexander Lebedev, fyrrverandi njósnari KGB hefur keypt stóran hluta útgáfufélags breska blaðsins London Evening Standard af The Daily Mail og General Trust sem þegar hafa samþykkt að selja blaðið.

Samkvæmt fréttavef BBC mun Lebedev, sem nú er milljarðamæringur í Rússlandi, eignast um 76% hlut í félaginu.

Þá kemur jafnframt fram í frétt BBC að Lebedev hafi notað blaðið áður fyrr þegar hann starfaði sem njósnari fyrir KGB í Lundúnum.

Talið er að eignir Lebedev nemi rúmum 3 milljörðum dala en hann hefur helst hagnast af fjármála- og tryggingastarfssemi auk þess að eiga stóran hluta í rússneska flugfélaginu Aeroflot.

Árið 2006 tók hann þátt í því að kaupa rússneska dagblaðið Novaya Gazeta ásamt Mikhail Gorbachev, fyrrverandi aðalritara Sovétríkjanna.

Aðspurður um áhuga sinn á London Standard sagði Lebedev í samtali við BBC að þetta væri einfaldlega mjög gott blað með „snilldar blaðamönnum,“ eins og hann orðaði það.