Icelandair þarf að greiða Halldóri Þ. Halldórssyni 800 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta og 600 þúsund króna málskostnaðar vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi við hann árið 2010, samkvæmt dómi Hæstaréttar frá í gær. Halldór var flugstjóri hjá Icelandair. Honum var gefið að sök að neytt áfengis í óhófi þegar hann flaug heim til Íslands með vél Icelandair og sýnt af sér kynferðislega áreitni á Saga Class.

Halldór er sonur Halldórs H. Jónssonar arkitekts, sem lést árið 1992. Halldór var stjórnarmaður í Flugleiðum. Eftir að hann lést tók Halldór Þ. sæti hans í aðalstjórn félagsins og sat í stjórninni til ársins 2000.

Var sakaður um að vera drukkinn um borð

Fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu í júní í fyrra að að Halldór hafi lokið fraktverkefni á vegum Icelandair í Liege í Belgíu og átti sæti sem farþegi til Íslands með flugi frá Schiphol flugvelli í Hollandi. Vegna lokunar á hraðbraut komst hann ekki í flugið og fékk Halldór boð um að taka í staðinn flug með SAS til Kaupmannahafnar og þaðan áfram með kvöldflugi til Keflavíkur. Halldór beið í 2-3 klukkustundir á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn. Þar sagðist hann hafa fengið sér tvö glös af bjór en ekki verið undir áhrifum áfengis þegar hann fór í flug. Þar sofnaði hann og vaknaði þegar búið var að gefa farþegum að snæða. Hann fékk engu að síður matarbakka með léttvíni og líkjör. Flugfreyjur og fleiri um borð héldu því fram að Halldór hafi  hagað sér ósæmilega um borð í flugvélinni og eftir lendingu. Hann hafi verið drukkinn, gerst sekur um kynferðislega áreitni og ógnað starfsmönnum. Í kjölfarið var honum sagt upp störfum.

Sagðist vera með járnofhleðslu í blóði

Halldór hélt því hins vegar fram að hann hafi ekki verið drukkinn. Hann ákvað engu að síður að fara í áfengismeðferð á Vog til könnunar á því hvort hann væri haldinn áfengissýki. Í vottorði SÁÁ, sem gefið er út eftir tveggja vikna dvöl hans, kom hins vegar fram að hann uppfyllti engin greiningarviðmið fyrir áfengissýki og því ekki verið talin ástæða til frekari meðferðar. Þá sýndi Halldór fram á að hann vær með járnofhleðslu í blóði sem er arfgengur og alvarlegur sjúkdómur og hafði áður leitt til óvinnufærni hans. Samhliða þessu hafði þróast með honum tímabundin sykursýki. Í kjölfarið tilkynnti Flugmálastjórn að Halldór uppfyllti ekki lengur kröfur sem gerðar eru til atvinnuflugmanna.

Hæstiréttur taldi ekki sannað að Halldór hefði neytt áfengis í óhófi þótt ljóst væri að hegðun hans hefði verið með þeim hætti að ekki sæmdi stöðu hans var hegðunin ekki talin hafa verið þess eðlis að réttlætt gæti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi. Þá var Icelandair ekki talið hafa áður veitt Halldóri áminningu vegna óviðeigandi hegðunar en telja yrði slíkt forsendu þess að félaginu væri heimilt að rifta ráðningarsamningnum. Í ljósi þessa var Halldóri dæmdar miskabætur.