Fyrsta gámaskip Samskipa sem hefur viðkomu á Hornafirði frá því í ágúst 2000 liggur nú við hafnarbakkann þar eystra. Í tilkynningu segir að verið sé að lesta skipið, Pioneer Bay, loðnuafurðum sem fara eiga á Japansmarkað en loðnuvertíð stendur nú sem hæst. Heildarburðargeta skipsins er um 5.500 tonn en það tekur rúmlega 500 tuttugu feta gámaeiningar. Frá Austfjörðum heldur skipið með afurðirnar til Hollands.

Pioneer Bay er sama skip og Samskip munu nota á nýrri siglingarleið sem kynnt var fyrir skömmu. Skipið fer þá frá Reykjavík til Ísafjarðar og verður þar þann 19. mars. Daginn eftir verður skipið á Akureyri og siglir þaðan til Reyðarfjarðar og svo áleiðis til Immingham í Bretlandi og Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Kollafirði í Færeyjum.