Fyrsti Domino's pítsustaðurinn var opnaður í Noregi um liðna helgi og verður Domino's keðjan í Noregi að miklu leyti í eigu sömu Íslendinga og reka Domino's á Íslandi.

Fyrsti staðurinn er staðsettur í hverfinu Lören í Osló sem áður var iðnaðarhverfi, en hefur nýlega verið endurskipulagt sem íbúðahverfi.

Birgir Þór Bielveldt, sem áður hefur opnað Domino's staði í Danmörku, Þýskalandi og Íslandi, hefur sagt í samtölum við norska fjölmiðla að fjárfestar að baki verkefninu ætli sér þrjú ár til að koma Domino's í sterka markaðsstöðu á norskum markaði. Nokkrir staðir til viðbótar eru á teikniborðinu og er gert ráð fyrir að þeir geti orðið 50 talsins.

Magnús Hafliðason, rekstrar- og markaðsstjóri Domino's á Íslandi, hefur verið í Osló síðustu vikur og aðstoðað Norðmennina við opnun staðarins. „Viðtökurnar hafa verið frábærar, það var löng röð út á götu í opnuninni um helgina og við finnum fyrir mjög jákvæðri stemningu í okkar garð. Við vorum með plötusnúð og Pali Grewal, heimsins fljótasta pítsubakara, að búa til pítsur og fólkið í hverfinu kom í stríðum straumi að kíkja á okkur,“ segir Magnús.

Domino's er ein stærsta pítsukeðja í heimi með 11.000 staði á heimsvísu.