*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 13. apríl 2016 11:10

Fyrsti íslenski rafbókastreymirinn

Study Cake hefur nú gefið út rafbókastreymi fyrir börn og unglinga, þann fyrsta sinnar gerðar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Nú hefur sprotafyrirtækið Study Cake gefið út fyrsta íslenska rafbókastreyminn. Áður hafði fyrirtækið gefið út snjallsímaforritling sem gerir börnum og unglingum kleift að svara spurningum úr bókunum sem þau lesa, í því skyni að bæta lesskilning og snjallsímavæða bóklestur.

Notendur forritsins geta skráð sig í mánaðarlega áskrift hjá Study Cake og fá þannig aðgang að þremur rafbókum gegnum forritið. Þannig getur barnið lesið bækur hvar og hvenær sem er, milli þess sem það svarar spurningum um það sem gerist í hverjum kafla.

Í þessari nýjustu uppfærslu geta notendur einnig sett sér dagleg lestrarmarkmið, en foreldrar geta svo sett fyrir árangurstengd verðlaun og fylgst með lestrarþróun barnanna sinna.

Kristján Ingi Geirsson, tæknistjóri Study Cake, segir þetta mikilvægan lið í því að efla læsi barna. „Viðtökur við fyrstu útgáfu smáforritsins fóru langt fram úr væntingum, og helsta fyrirspurn notenda okkar var svo hvort ekki væri hægt að lesa í appinu. Að sjálfsögðu töldum við okkur geta annað þessari eftirspurn.”

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um Study Cake, en ítarleg umfjöllun um fyrirtækið birtist í Viðskiptablaðinu þann 14. janúar þessa árs. Hluta þeirrar umfjöllunar má lesa með því að smella hér.