Velta í dagvöruverslun dróst saman um 10,4% á föstu verðlagi í desember miðað við sama mánuð árið áður. Á breytilegu verðlagi jókst veltan um 18,2% á sama tímabili.

Í þessu felst að jólaverslunin minnkaði að raunvirði þó neytendur hafi varið fleiri krónum til innkaupanna en árið áður. Verð á dagvöru hækkaði um 32% á einu ári, frá desember 2007 til desember 2008.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Þar kemur fram að velta dagvöruverslunar í desember var minni að raunvirði en hún var bæði í desember 2007 og desember 2006.

Í skýrslu Rannsóknarseturs kemur fram að þetta er í fyrsta sinn frá því að farið var að birta smásöluvísitöluna árið 2001 að veltan minnkar að raunvirði milli ára ef miðað er við desemberveltu og því enn óvenjulegra að fara þurfi þrjú ár aftur í tímann til að finna minni veltu í dagvöruverslun í desember.

Sala á áfengi minnkaði um 9,1% í desember miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 16,5% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 28.1% í desember síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Þá minnkaði fataverslun einnig í desember. Velta fataverslunar var 22,8% minni í desember á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og dróst saman um 5,5% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hækkaði um 22,3% á einu ári.

Álíka samdráttur var í veltu skóverslana. Þannig minnkaði velta skóverslunar um 22,6% í desember á föstu verðlagi og um 10,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Það er til marks um samdrátt í skóverslun í desember að hún var aðeins 5% meiri en í janúar sama ár, mælt á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði um 11,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í desember minnkaði velta í húsgagnaverslun um 51,3% á föstu verðlagi miðað við desember í fyrra og um 36,6% á breytilegu verðlagi. Húsgagnaverslun dróst einnig saman í desember miðað við mánuðinn þar á undan um 5,5% á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 30,1% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Sjá nánar vef Rannsóknarseturs verslunarinnar.