Big TV mun einnig verða fyrsta sjónvarpsstöðin í Evrópu, ef ekki heiminum, til að senda út samtímis í sjónvarpi, á Internetinu og í útvarpi. Þetta kemur fram í frétt þeirra Sigurjóns Sighvatssonar og Björns Steinbekk Kristjánssonar en þeir segjast hafa samstarfssamninga við eina af tveimur stærstu einkareknu útvarpsstöðvum Skandinavíu á teikniborðinu ásamt því að hafinn er undibúningur að umsóknum um útvarpsleyfi í þeim löndum sem Big TV mun starfa í.

Fréttir um áform þeirra í sjónvarpsrekstri hafa vakið mikla eftirtekt en hugmyndafræði þeirra er að þeir sem fylgjast munu með Big TV og horfa reglulega, geti hvenær sem er stillt inn og notið þess sem í boði er, hvort sem er í sjónvarps- eða útvarpstækjum sínum og tölvum. Þessi aðferð eða nýjung, ef svo má að orði komast, hefur í för með sér aukin efnistök í framleiðslu, fjölbreyttari og víðtækari dreifingu á Big TV, ásamt betri og skilvirkari dreifingu og nýtingu auglýsinga fyrir viðskiptavini Big TV.

"Gríðarlegir möguleikar eru til staðar í dag, þökk sé framþróun á tæknihugbúnaði í sjónvarpsiðnaði. Sú hugsun að sjónvarpsstöð sé það mikið fyrirtæki að til þurfi 450 starfsmenn heyrir sögunni til. Þannig mun Big TV, strax í upphafi útsendinga, kynna nýja þjónustu sem felst í því að áhorfendur geta hvenær sem er keypt og niðurhalað lögum og eða tónlistamyndböndum ekki ólikt því sem iTunes og fleiri fyrirtæki bjóða upp á víðsvegar í heiminum í dag. Big TV mun einnig bjóða sínum áhorfendum að kaupa og niðurhala lögum beint í GSM síma en slíkum símum er spáð mikilli sölu á næstu árum. Forsvarsmenn Big TV líta svo á að sá markhópur, sem Big TV mun höfða til, sé einmitt sá hópur sem fagnar hvað mest tækninýjungum ásamt því að löglegt niðurhal tónlistar gagnist jafnt hljómplötufyrirtækjum, rétthöfum og eigendum Big TV sem nýr tekjustofn, segir í frétt þeirra félaga.