Klassískur dökkur fatnaður er vinsæll núna sem áður í fatnaði Guðmundar Jörundssonar hjá JÖR. „Við erum aðallega að vinna með gráa liti, ljósbrúna, svarta og bláa en það er auðvitað misjafnt eftir því hver varan er. Það er kannski hefðbundnara litaval í jakkafötum og skiptist eftir línum.“ JÖR er með þrjár línur í versluninni á Laugavegi en um mánaðamótin opnar ný dömudeild.

„Við erum bæði með „Ready to wear“ línu sem er sýnd tvisvar á ári en hún er unnin út frá hugarheimi eða konsepti hverju sinni. Þær vörur eru sérstakari. Haustlínan er svört og hvít, mikið teinótt og allt silkiprentað. Þess utan keyrum við á svokallaðri búðarlínu sem er allt milli himins og jarðar; jakkaföt, skyrtur, frakkar, úlpur, gallabuxur, skór, bómullarbuxur, bindi, slaufur, vasaklútar og svo framvegis.“

Þetta eru fyrstu jólin hjá versluninni JÖR og Guðmundur gerir ráð fyrir mikilli stemningu. „Það er auðvitað langmest verslað í desember. Það er mikið gjafavara en einnig kaupir fólk á sjálft sig fyrir hátíðarnar sem er partur af stemningunni hugsa ég. Þetta eru auðvitað fyrstu jólin hjá JÖR-versluninni en ég geri ráð fyrir mikilli stemningu en ég býst við að jólaverslunin hefjist af alvöru í kringum miðjan desember. Íslendingar eru öfgafólk og óskipulagðir upp til hópa. Ég var einmitt að ræða við danska stelpu sem er í fatabransanum og hún sagði að nóvember væri ekki mikið síðri en desember í Danmörku. Það er eflaust vegna þess að Danir eru geðsjúk skipulagsfrík á meðan Íslendingar eru andstæðan við það.“

Enginn vill lenda í jólakettinum og því er desembermánuður ansi líflegur í fataverslunum. Nánar er fjallað um fatavalið um jólin í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .