Fjármálaráðherrar G20 ríkjanna svokölluðu funda í dag og á morgun í Moskvu og verða gjaldeyrismál ofarlega á baugi á fundinum. Í frétt BBC segir að ótti við gengisstríð helstu viðskiptavelda heimsins gæti verið í uppsiglingu fari vaxandi. Á fundi G7 ríkjanna fyrr í vikunni sáu fjármálaráðherrar þeirra ástæðu til að taka fram að þeir myndu ekki setja gengisviðmið á eigin gjaldmiðla.

G20 hópurinn hefur áður mælst til þess við aðildarríki að þau grípi ekki inn í á gjaldeyrismörkuðum til að hafa áhrif á gengi gjaldmiðla. Fjármálaráðherra Rússlands, .Anton Siluanov, segir að fundurinn nú muni líklega ítreka þessi tilmæli.

Fundurinn er haldinn í skugga frétta af versnandi efnahagsástandi í mörgum stærstu hagkerfum heims. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs dróst landsframleiðsla Japans saman um 0,1% og hagkerfi evrusvæðisins dróst saman um 0,6% á sama tíma, einkum vegna samdráttar í Frakklandi og Þýskalandi. Þetta hefur leitt til vangaveltna um að þessi ríki eða ríkjasambönd muni reyna að vekja gengi gjaldmiðla sinna til að ýta undir útflutning. Peningastefna Japans hefur til dæmis leitt til þess að jenið hefur veikst um 15% frá því í nóvember.