Landhelgisgæslan er enn sú stofnun sem almenningur treystir hvað best. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR þar sem spurt er um traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála. Traust almennings á Landhelgisgæslunni mælist nú rúmlega 87% og hefur ekki verið hærra frá því að sambærilega mælingar MMR hófust.

Ríkislögreglustjóri nýtur einnig mikils trausts meðal almennings en um 65% aðspurðra segjast treysta stofnuninni mikið. Aðrar stofnanir njóta minna trausts en traustið hefur þó aukist til allra þeirra stofnana sem könnunin nær til frá því í febrúar 2001.

Traust á dómskerfinu í heild hefur aukist nokkuð og sögðust 44,5% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til þess, borið saman við 33,6% í febrúar 2011. Í könnuninni sögðust 50,7% bera mikið traust til Ríkissaksóknara. Traust til Hæstaréttar hækkar nokkuð frá því í febrúar 2011 þegar 38,8% sögðust bera mikið traust til stofnunarinnar, borið saman við 53,2% nú. Jafnframt hefur hlutfall þeirra sem bera lítið traust til Hæstaréttar minnkað talsvert á milli mælinga, úr 34,7% í febrúar 2011 í 19,5% nú.

Traust til embættis sérstaks saksóknara hefur dregist nokkuð saman frá því í febrúar 2011 þegar 59,8% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til stofnunarinnar borið saman við 51,8% nú.

Sjá könnun MMR í heild sinni.