Hagkerfi Bretlands gæti liðið fyrir útgöngu þjóðarinnar úr Evrópusambandinu. Þetta sagði bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, á blaðamannafundi í morgun. Síðustu daga hefur Englandsbanki kynnt nokkrar nýjar stefnur til að létta á róðrinum. Bloomberg greinir frá þessu.

„Það er möguleiki á því að hægst gæti á gangi hagkerfisins,” sagði Carney á fundinum. „Fjöldi heimila sem eru viðkvæm fjárhagslega gæti farið hækkandi vegna efnahagshorfanna sem við stöndum frammi fyrir.” Þetta er í þriðja sinn sem Carney kemur fram opinberlega og tjáir sig um ástandið í efnahagslífinu og áhrifin sem kosningarnar um viðveru Breta í ESB gætu haft.

Fjárhagsstefnunefnd bankans kynnti stórar breytingar á reglum um fjármál banka síðastliðinn fimmtudag auk þess sem Carney hefur gefið í skyn að aukin magnbundin íhlutun og stýrivaxtalækkanir gætu verið í vændum það sem eftir er sumars.

Með því að koma fram leitast hann eftir því að veita landsmönnum andlegan styrk og sjálfstraust, segir Adam Marshall, framkvæmdastjóri breska viðskiptaráðsins. Könnun sem framkvæmd var fyrir skömmu sýndi að bresk fyrirtæki eru neikvæðari nú en áður og Marshall segir hlutverk Carney og Englandsbanka mikilvægt á tímum sem þessum.