Bandaríska risaframleiðslufyrirtækið Disney situr nú undir ásökunum um þjónkun við kommúnistastjórnina í Kína vegna gerðar nýrrar stórmyndar um Múlan sem er endurgerð á vinsælli teiknimynd félagsins frá 1998.

Í kreditlista myndarinnar þakkar Disney þónokkrum stjórnarstofnunum í Kína fyrir aðstoð við gerð myndarinnar, þar á meðal í Xinjiang héraði þar sem um tvær milljónir Uyghur múslíma hafa verið sendir í svokallaðar endurmenntunarbúðir síðustu ár að mati utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna.

Bandaríska ríkið hefur sett þónokkur af þessum stofnunum á lista yfir samtök sem komið hafa að mannréttindabrotum, þar á meðal öryggis og ferðamannaskrifstofu Turpan borgar í útjaðri Urumqi höfuðborgar héraðsins.

Kommúnistastjórnin í Kína hefur sagt endurmenntunarbúðirnar nauðsynlegar til að berjast gegn hryðjuverkum og sagt þeim ætlað að kenna vistmönnum ýmis konar verkmenntun. Þverneita stjórnvöld þar að um útrýmingarbúðir sé að ræða.

Þakka áróðurs- og öryggisstofnunum fyrir samstarfið

Síðan sýningar á myndinni hófust á streymisveitunni Disney+ á föstudaginn hefur gagnrýni á Disney vegna samstarfsins við stjórnvöld í héraðinu orðið áberandi á samskiptamiðlum, og er fyrirtækið hvatt til að biðjast opinberlega afsökunar.

Sérstaklega þykir gagnrýnivert að vera í samstarfi við stjórnarstofnanir sem hafa það hlutverk að boða áróður og tryggja öryggi að því er CNN hefur eftir Isaac Stone Fish hjá mannréttindasamtökunum Asia Society. Líklegt má telja að í fréttinni sé Beijing ruglað fyrir Disney í tilvitnun í hann þess efnis.

Disney hefur haft miklar væntingar um myndina líkt og aðrar endurgerðir klassískra teiknimynda félagsins, en sýning hennar var sett á ís í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins, og verður ekki af sýningum í bíóhúsum eins og upphaflega stóð til nema í Kína.

Aðalleikonan tók afstöðu gegn mannréttindamótmælum í Hong Kong

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem myndin er gagnrýnd. Þannig hafa mótmælendur í Hong Kong kallað eftir því að myndin verði sniðgönguð eftir að aðalleikonan Liu Yifei, sem er bandarískur ríkisborgari fædd á meginlandi Kína, lýsti yfir stuðningi við lögregluna í borginni og sagði mótmæli sjálfstæðis og mannréttindasinna vera til skammar.

Leikstjóri myndarinnar, Niki Caro, birti árið 2017 myndir af sér í Urumqi borg þar sem hann var að leita að stöðum fyrir upptökur hennar, en bent hefur verið á að fyrstu heimildir um að íbúar héraðsins af minnihlutahópum hafi verið sendir í endurmenntunarbúðirnar svokölluðu séu frá árinu 2013.

Leikstjórinn átt að geta séð lögreglustöðvar út um allt

Adrian Zenz sem er í forystu samtaka fórnarlamba kommúnisma sem hafa upplýst um mörg þau mannréttindabrot sem stjórnin í Kína stundar í héraðinu segir að þó mögulegt sé að leikstjórinn hafi ekki vitað af þjóðarhreinsununum, hafi hin almenna kúgun sem ríkti í héraðinu ekki hafa getað farið fram hjá neinum sem það heimsótti á þessum tíma.

„Það voru lögreglustöðvar og eftirlitsstöðvar út um allt í Xinjiang árið 2016, sem ekki gat farið framhjá neinum,“ hefur CNN eftir Zenz. Áðurnefndur Stone Fish segir fyrirtæki oft beygja sig fyrir stjórnvöldum í landinu en ekki þurfi að taka jafnstór skref og Disney sé að gera sem sé gagnrýnivert.

Yaqiu Wang sem starfar við rannsóknir á ástandinu í Kína fyrir Human Righs Watch kallar svo eftir því að hvaða leiti kínvers stjórnvöld aðstoðuðu Disney við gerð myndarinnar og hvað fyrirtækið samþykkti í staðinn.