Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfsstæðisflokksins lagði dag fram fyrirspurn til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands.

Ríkisstjórnin hefur boðað breytingar á stjórnarskránni, meðal annars ákvæðum um auðlindarmál og þjóðaratkvæða greiðslu.

Birgir spurði hvernig það samræmdist að boða breytingar á stjórnarskrá á sama tíma og lögð væru drög að því að boða stjórnlagaþing í haust. Hann sagði óþarft að breyta stjórnarskránni nú, rétt fyrir kosningar, ef stjórnlagaþing ætti að taka til starfa í haust þar sem unnið yrði að breytingum á stjórnarskránni.

Þá gagnrýndi Birgir ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki leitað eftir þverpólitískri sátt í málinu. Ríkisstjórnin hafi aðeins kynnt stjórnarandstöðunni fyrirhugaðar breytingar en ekki leitað eftir athugasemdum eða innleggi stjórnarandstöðunnar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sagði að þrátt fyrir að breytingar væru boðaðar nú stuttu fyrir kosningar, væri mikil vinna þar að baki og því væri óþarfi að bíða með það lengur að leggja drögin fyrir þingið. Hún sagði að nefnd um breytingar á stjórnarskrá sem starfaði í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefði lagt fram tillögur um breytingar á auðlindamálum og því væru það ekki nýjar tillögur.

Þá sagði Jóhanna að stjórnlaga þing myndi hafa fullt umboð til að leggja fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni.

Birgir sagði í mótsvari sínu að ekki hefði náðst sátt um auðlindarmál í þeirri nefnd sem Jóhanna vitnaði til í ræðu sinni. Málin hefðu vissulega verið rædd en nefndin hefði ekki skila niðurstöðu.

Ólöf Nordal gagnrýndi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að setja lög um stjórnarskrábreytingar á meðan önnur og brýnni verkefni biðu úrlausnar. Þá fordæmdi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins vinnubrögð ríkisstjórnarinnar fyrir það að þröngva inn breytingum á „merkilegasta plaggi löggjafans“ stjórnarskránni „korteri fyrir kosningar,“ eins og hún orðaði það.

Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri fylgjandi því að endurskoða stjórnarskránna en hingað til hefði náðst pólitísk sátt um þær breytingar sem gerðar hafi verið. Þannig hafi stjórnarskránni verið breytt árið 1991, `95 og `99 og alltaf hefði náðst um það þverpólitísk sátt.