Marinó Örn Tryggvason, fyrrum forstjóri Kviku banka, finnst miður hvernig umræða um íslenskt fjármálakerfi hefur þróast. Ljóst sé að aukin skattlagning myndi draga úr hagkvæmni í fjármálakerfinu, gera fjármögnun hér á landi dýrari sem hefði í för með sér að hægt væri að fjármagna færri verkefni.

„Þetta er hluti af því sem manni finnst miður. Maður verður hálf sorgmæddur þegar maður heyrir fólk - þá er ég ekki að tala um neinar sérstakar persónur - tala gegn betri vitund. Flestir þeir sem eru að tjá sig, með einfaldar lausnir í opinberri umræðu, þeir vita miklu betur að þetta er aðeins flóknara. Maður myndi vilja óska þess að fólk standi undir þeirri ábyrgð sem það tekur að sér,“ segir Marinó í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Þar var hann spurður út í hvort vonbrigði væri að sjá Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar og fyrrum aðalhagfræðing Kviku, kalla nýlega eftir því að bankaskatturinn yrði hækkaður á ný.

„Ég efast um að það sé hærri skattlagning - án þess að ég ætli að fullyrða um það - á fjármálafyrirtæki neins staðar, alla vega ekki í Evrópu,“ svaraði Marinó.

Skattahækkun eins og að leggja einbreiðar brýr

Marinó, sem hefur starfað í íslenska bankageiranum undanfarna tvo áratugi, segist líta á fjármálakerfi sem mikilvæga innviði fyrir samfélög. Hlutverk þess sé í grunninn einfalt, að koma fjármagni frá þeim sem eiga það til þeirra sem þurfa þess. Það felist t.d. í lánveitingum, fjárfestingum í hlutabréfum, áhættudreifingu í gegnum tryggingafélög og hjá lífeyrissjóðum að færa neyslu í tíma.

„Eftir því sem við getum gert þetta á hagkvæmari hátt þá er hægt að fjármagna fleiri verkefni sem ætti þá að leiða til þess að hagvöxtur verði meiri í framtíðinni. Þar af leiðandi verður kakan stærri og það skapast möguleiki til þess að lífskjör verða betri í landinu.

Eftir því sem við skattleggjum þetta meira þá verður hagkvæmnin minni og það ætti til lengri tíma að gera þessa innviði verri. [...] Það gerir það að verkum að það verður hægt að fjármagna færri verkefni.“

Marinó, sem er Akureyringur, dregur upp samanburð við vegakerfið. Á hans yngri árum þótti gott að keyra frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar á 10 tímum en í dag sé aksturstíminn helmingi styttri sem megi að stórum hluta rekja til betri innviða. Hann segir skattahækkun á fjármálakerfið smá eins og ef aftur yrðu lagðar einbreiðar brýr á þjóðvegina.

„Þetta er ekki bara einkamál þeirra sem eiga fjármuni af því að samfélagið byggir á því að fólk hafi vinnu og að það sé rekstur. Reksturinn þarf að standa undir skattgreiðslum sem stendur undir samneyslunni, hvort sem fólk er þá starfsmenn einkageirans eða hjá hinu opinbera. Þetta skiptir allt miklu máli.“

Samkeppni á innlánsmarkaði skilað tugmilljarða ábata

Í nýlegri skýrslu starfshóps viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi bankanna segir að aukin hagkvæmni og lækkun sérstaka bankaskattsins árið 2021 hafi ekki skilað sér í minni vaxtamun. Tekið er þó fram að skoða verði niðurstöðurnar í því ljósi að samanburðurinn nær yfir stutt tímabil sem einkenndist af verulegum sveiflum í efnahagsumhverfinu.

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hefur farið mikinn í fjölmiðlum frá birtingu skýrslunnar. Hún sagði vonbrigði að lækkun bankaskattsins hefði ekki skilað sér í bættum kjörum fyrir neytendur og gaf til kynna að skatturinn yrði mögulega hækkaður aftur ef vaxtamunur bankanna myndi ekki lækka.

„Ég held reyndar að samkeppni í fjármálakerfinu hafi verið að vaxa mjög mikið,“ segir Marinó í umræðum um skýrsluna og bætir við að aukin samkeppni sé að hans mati leiðin til að bæta kjör neytenda.

„Ég held að það sé afskaplega langsótt að ætla að bæta kjör neytenda með skattlagningu. Ég held að skattlagning – ég veit að hún er nauðsynleg til að standa undir samneyslu – en skattlagning geri það að verkum að hlutirnir verða óhagkvæmari á meðan samkeppni gerir hlutina hagkvæmari. Þá er verið að leita að betri leiðum til þess að gera hluti ódýrari.“

Marinó nefnir í þessu samhengi Auði, innlánsreikninga á netinu sem Kvika byrjaði að bjóða upp á árið 2019. Auður hafi boðið upp á mun hærri vexti á óbundið sparifé heldur en stóru viðskiptabankarnir.

„Hvort sem það er út af Auði eða ein­hverju öðru, þá er núna verið að borga miklu hærri vexti hjá öllum bönkum, þá er ég ekki að tala um út frá vaxta­stigi heldur sem hlut­fall af stýri­vöxtum. Þannig getum við sagt að aukin sam­keppni, eins og á inn­stæðu­markaðnum, hefur lík­lega fært ís­lenskum heimilum ein­hverja tugi milljarða á ári.

Þetta er leiðin frekar heldur að skattleggja eitthvað aðeins meira og búa til óhagkvæmni. Við eigum að leggja virkilega áherslu á það hvernig við getum aukið samkeppni.“

Kostar að vera með mestu eiginfjárkröfurnar í Evrópu

Spurður um þær eiginfjárkröfur sem stjórnvöld setja á bankana, segir Marinó að þær séu líklega hvergi meiri í Evrópu heldur en hér á landi. Það kosti og geri það að verkum að bankakerfið er dýrara en ella.

„Ef þið viljið ekki missa buxurnar niður um ykkur þá er gott að vera með belti og axlabönd. Það eru samt fáir með það af því að menn taka bara smá áhættu. Bankakerfið hérna á Íslandi er pínulítið með belti og axlabönd.“

Vissulega stuðli háar eiginfjárkröfur að meiri öryggi í fjármálakerfinu sem geti verið gott, sérstaklega þegar óvissa skapast líkt og í Covid og í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Hins vegar saknar hann að gallarnir og kostnaðurinn séu ekki ræddir meira.

„Ef við vildum ekki hafa nein slys á leiðinni til Akur­eyrar þá myndum við bara láta alla keyra á 30 [km/klst]. Það yrði ekki mikið af al­var­legum slysum ef það væri bara bannað að keyra hraðar en 30 og því yrði fylgt mjög hart eftir. En það er metið svo­leiðis með kostnaðar- og á­bata­greiningu að það borgar sig ekki að láta alla keyra á 30 af því að þá færi engin til Akur­eyrar, það tæki svo langan tíma.

Að ein­hverju leyti er verið að gera það í fjár­mála­kerfinu, með því að vera með jafn­miklar kröfur og raun ber vitni.“

Marinó segir að þetta sjáist hvað best á hinu svo­kallaða vogunar­hlut­falli, þ.e. hlut­falli eigin­fjár­þáttar 1 á móti heildar­á­hættu­skuld­bindingum banka.

Marinó ræðir um skattlagningu og regluverk í fjármálakerfinu og opinbera umræða um þessa þætti frá 27:19-43:10.