„Ljóst er að Húsasmiðjan naut þess að eiga ríka pabbann Landsbankann. Aftur á móti höfðu hluthafar Landsbankans og lífeyrisgreiðendur, eigendur Framtakssjóðsins, minna en ekkert upp úr sölu Húsasmiðjunnar þegar loks kom að henni,“ segirBaldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann að óhjákvæmilegt sé að benda á „nokkur undanskot staðreynda“ í máli Sigurðar Arnar Sigurðssonar, forstjóra Húsasmiðjunnar, í viðtali við Markaðinn þann 11. apríl síðastliðinn.

„Sigurður kannast ekki við að eignarhald Landsbankans og Framtakssjóðs Íslands á Húsasmiðjunni hafi skapað fyrirtækinu betri stöðu en ella. Staðreyndir tala öðru máli. Landsbankinn breytti 11 milljarða króna skuldum í hlutafé. Landsbankinn leysti til sín stórt húsnæði Húsasmiðjunnar og veitti fyrirtækinu síðan 2,5 milljarða króna kúlulán til 5 ára með afar lágum endurgreiðslum fyrstu 5 árin. Seint verður nokkuð af þessu talið eðlileg fyrirgreiðsla til fyrirtækis í bullandi taprekstri eftir milljarða afskriftir,“ segir Baldur meðal annars í greininni.

Þá vísar Baldur til þess að Sigurður kenni skuldsettum yfirtökum á árunum fyrir hrun um buga skuldastöðu Húsasmiðjunnar. Það sé hins vegar varla nema hálfur sannleikur. „Hömlulaus útþensla Húsasmiðjunnar út um allt land með uppkaupum fyrirtækja og stækkun verslana allt fram að bankahruni verður varla tekið út fyrir sviga.

Forstjórinn gumar af því að hafa lækkað kostnað með fækkun starfsmanna og launalækkun þeirra sem eftir sitja. Þessi glansmynd stenst illa nánari skoðun. Samkvæmt nýjustu tiltækum ársskýrslum var starfsmannakostnaður Húsasmiðjunnar tæplega 19% af veltu sem er tugum prósenta hærri en hjá helstu samkeppnisaðilum hennar.“

Í niðurlagi greinarinnar segir Baldur: „Vandséð er hvers vegna forstjóri Húsasmiðjunnar getur ekki komið hreint fram við lesendur. Ég hélt að sá tími væri liðinn að menn mættu í viðtöl við fjölmiðla til þess að pumpa sig og fyrirtæki sín upp og sleppa að ræða það sem gæti minnkað loftið í froðunni. Svona sjálfsupphafning gerir ekki mikið til að stuðla að vitrænni umræðu um byggingavörumarkaðinn.“