Ragnar Árnason prófessor í hagfræðideild Háskóla Íslands birti í Morgunblaðinu í dag grein þar sem hann svarar gagnrýni á grein sína um launamun kynjanna í Frjálsri verslun frá því í júní.

Tölfræðilega alvarlega gallaðar niðurstöður

„Ég benti jafnframt á að þær kannanir á launamun kynjanna hér á landi sem birtar hefðu verið væru tölfræðilega alvarlega gallaðar og niðurstöðurnar í besta falli óáreiðanlegar,“ segir Ragnar í greininni í Morgunblaðinu.

„Þar að auki segðu þær ekkert um orsakir þess launamunar sem kynni að vera fyrir hendi.“

Vill láta framkvæma vandaðri könnun

Vísar Ragnar í greininni jafnframt í fyrri orð sín um að það væri ótvírætt réttlætismál að sömu laun væru greidd fyrir sömu vinnu og að launamismunur kynjanna væri samfélagslega óásættanleg.

Einnig að hann hefði hvatt til þess að samtök vinnumarkaðarins tækju höndum saman um að láta framkvæma vandaða könnun á launamun kynjanna og fengju til þess færustu tölfræðinga, hagfræðinga og félagsfræðinga sem völ væri á.

Hrokafullur og gamaldags

„Á grundvelli slíkrar könnunar væri unnt að átta sig á því hvort um launamismunun væri að ræða, hversu umfangsmikil hún væri og hvað einkum ylli henni,“ segir Ragnar í greininni.

„Ólafa B. Rafnsdóttir, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur [sér] ástæðu til að andmæla þessum sjónarmiðum. Hún telur óþarfa að vandaðri kannanir séu gerðar og reynt sé að grafast fyrir um orsakir launamunar og kallar mig hrokafullan og gamaldags fyrir að leggja slíkt til.“

Stóryrði duga ekki til

Segir Ragnar að launamunurinn sé flókið fyrirbæri sem eigi sér djúpar félagslegar rætur og að stóryrðin ein dugi ekki til að leysa hann.

Segir hann jafnframt að þeir sem snúist gegn því að skipulega sé unnið að því að skilja orsakir launamismunarins og umfang hans séu í raun að vinna að áframhaldandi launamismunun.