Á sama tíma og nýjasta kynslóð iPhone farsímans frá Apple hefur verið lofuð í hásterkt þá hefur hann hlotið nokkra gagnrýni og notendur verið í vandræðum með loftnet símans. Svo virðist sem bein snerting á bakhlið símans, þar sem loftnetið er, rjúfi sambandið.

Nýtur vinsælda þrátt fyrir galla

Síðan fjórða kynslóð símans kom út í síðasta mánuði hefur hann notið mikilla vinsælda. Raunar svo mikilla að fyrstu dagana í sölu mynduðust biðraðir á sölustöðum. Á fyrstu þremur söludögum seldust um 1,7 milljónir síma. En margir hafa átt í vandræðum með að halda stöðugu símasambandi. Í umfjöllun Reuters um málið segir að vandamálið sé ekki síður vegna þess hvernig Apple nálgast það.

Strax á fyrsta degi bárust kvartanir frá fjölmörgum notendum. Apple brást við með þeim tilmælum að notendur héldu vitlaust á símanum. Þá mæltu þeir með hugbúnaðaruppfærslu, en í ljós kom að hún gerði lítið annað en að ljúga til um raunverulegan styrk símasambandsins.

Betri en fyrri útgáfur

Nýjasta útgáfa iPhone þykir að flestu leyti betri en sú sem á undan kom. Útlitslega þykir hann fegurri og í umfjöllun Reuters segir að allt frá skjá símans til hraða hugbúnaðar sé betra. Þá er símasamband jafn gott og á öðrum sambærilegum símum – að því gefnu að notandi hafi símann í hulstri sem ver bakhliðina frá beinni snertingu.

En svör Apple við fyrirspurnum notenda iPhone hafa þótt dræm. Margir notendur eru ósáttir og nýlega birti bandarískt neytendablað, Consumers Report, umfjöllun um gripinn. Þar er vandamál með loftnet símans staðfest. Hluthafar Apple hafa ekki farið varhluta af þessari neikvæðu umfjöllun og frá því í lok júní hefur verð á hlutabréfum fyrirtækisins fallið töluvert. Í gær féll verðið um 4,2%, sem samsvarar um 9,9 milljörðum Bandaríkjadala. Verð hækkaði þó aðeins fyrir lok dags og nam lækkunin í gær rúmum 2 prósentum.

Upplýsingagjöf áður verið slæm

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem vankantar eru á upplýsingagjöf Apple fyrirtækisins. Þegar Steve Jobs, forstjóri og stofnandi Apple, veiktist árið 2004 voru fyrstu frásagnir fyrirtæksins þær að Jobs glímdi við léttvægan vírus. Stuttu síðar var tilkynnt að veikindi forstjórans væru vegna ójafnvægis í hormónakerfinu. Hið rétta var að Jobs greindist með æxli í brisristli. Frá því var ekki sagt fyrr en eftir að Jobs var farinn í veikindaleyfi og gangast undir aðgerð þar sem hann fékk nýja lifur.

Að mati blaðamanns Reuters gætu forsvarsmenn Apple hæglega komið í veg fyrir slæma umfjöllun með tilheyrandi áhyggjum hluthafa með því að skýra betur frá vandamálum sem upp koma.