Eitt af því sem mikið hefur verið fjallað um síðustu ár er skipan dómara. Nýlega voru gerðar þær breytingar að innanríkisráðherra (áður dómsmálaráðherra) er skylt að fara eftir tilnefningu sérstakrar matsnefndar. Ætli ráðherrann sér að skipa annan en þann sem matsnefndin tilnefnir þarf hann að leita stuðnings meirihluta Alþingis.

„Ég er á þeirri skoðun að skipun dómara hefði átt að vera áfram í höndum ráðherra og hann bæri þá pólitíska ábyrgð á því,“ segir Þórunn Guðmundsdóttir, hrl., aðspurð um þetta í áramótatímariti Viðskiptablaðsins.

Þórunn, sem er fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, hefur starfað við lögmennsku í tæp 30 ár. Í viðtali við áramótatímarit Viðskiptablaðsins tjáir Þórunn sig um gang mála vegna rannsókna á hinum svokölluðu hrunmálum, stöðu lögmanna í dag, skipan dómara og margt fleira.

„Það er þó engin ein rétt leið til að skipa dómara og þetta hefur valdið miklum deilum. Það hafa að vísu verið skipaðir mjög færir einstaklingar í matsnefndina en það eru skrýtnar forsendur sem settar hafa verið. Það er sjálfsagt að fá umsagnaraðila en skipunarvaldið á að vera í höndum ráðherra.”

Menn hafa gert mikið úr þessum nefndum sem oft sitja í dómarar. En þá liggur beinast við að spyrja, er eðlilegt að dómarar velji starfsfélaga sína? Eykur það ekki hættu á klíkumyndun?

„Það eru klíkur alls staðar. Það er auðvitað ákveðin hætta á því að ef ráðherra þarf alltaf að fara eftir mati annarra dómara, að dómarastéttin verði mjög einsleit,“ segir Þórunn.

„Svo færðu mann eins og Jón Steinar inn í Hæstarétt sem kemur úr lögmennsku. Hann hefur mikið verið gagnrýndur fyrir sín mörgu sérálit í dómum réttarins. Mér finnst sératkvæði hans hins vegar mjög mikilvæg fyrir lögfræðina. Það er líka mjög gaman að flytja mál í Hæstarétti þegar Jón Steinar er að dæma. Hann spyr mjög mikið og lætur mann hafa fyrir hlutunum. Hann hefur aðra sýn á lögfræðina sem er nauðsynlegt. Ég er ekki að segja að ég vildi hafa tólf slíka, en það er nauðsynlegt að vera með mann eins og hann og þeir mættu vera fleiri. Það verður að vera fjölbreytni.”

Þórunn bætir því við að mikilvægt sé að horfa til allra þátta við val á dómunum. Þannig þurfi að skipa nýja dómara beint úr lögmannastéttinni í auknum mæli. Þá sé rétt að skipa dómara úr akademíunni, hæstaréttardóma úr röðum héraðsdómara o.s.frv. Þá sé líka mikilvægt að horfa til þeirra sem starfað hafa erlendis, hvort sem er hjá alþjóðastofnunum eða alþjóðadómstólum.