Slitastjórn gamla Landsbankans seldi í dag allan hlut sinn í Eimskipi, tæplega 10,8 milljónir hluti. Þetta jafngildir 5,4% hlut í skipaflutningafélaginu og á slitastjórnin eftir viðskiptin enga hluti í félaginu, að því er fram kemur í flöggun . Gengi hlutabréfa Eimskips lækkaði um 0,4% við upphaf viðskipta í Kauphöllinni í dag. Það stendur nú í 251,5 krónum á hlut. Miðað við það nemur söluandvirði Eimskipsbréfa slitastjórnar Landsbankans um 2,7 milljörðum króna.

Í kjölfar yfirtöku lánardrottna á Eimskipi og fjárhagslegrar uppstokkunar átti gamli Landsbankinn um mitt ár 2009 40% hlut í félaginu. Gamli bankinn seldi smám saman af eign sinni. Fyrir hlutafjárútboði með bréf Eimskip í október í fyrra sat slitastjórnin á 30% hlut í Eimskipi en eftir útboðið átti gamli bankinn 12,4%.

Stærsti hluthafi Eimskips er félagið Yucaipa American Alliance Fund II, LP með rúman 15% hlut. Yucaipa American Alliance (Parallel) á svo 10% til viðbótar en Lífeyrissjóður verslunarmanna tæp 14,6%. Gamli Landsbankinn var 5. stærsti hluthafi Eimskips fyrir söluna í dag, samkvæmt hluthafalista .